Agent MoMo meistarar Draugamóts Molduxa

Kraftframherji Agent MoMo, Jóhannes Björn Þorleifsson, tekur við verðlaunum úr hendi Vignis Kjartanssonar, formanns kærunefndar Jólamóts og þingforseta Molduxa. Mynd: PF.
Kraftframherji Agent MoMo, Jóhannes Björn Þorleifsson, tekur við verðlaunum úr hendi Vignis Kjartanssonar, formanns kærunefndar Jólamóts og þingforseta Molduxa. Mynd: PF.

Dregið var í Draugamóti Molduxa á milli jóla og nýárs en um fjáröflunarleik var að ræða sem kom í stað körfuboltamóts sem haldið hefur verið fyrir almenning annan dag jóla í rúman aldarfjórðung. Ekki er hægt að segja að stemningin hafi verið mikil að þessu sinni þar sem einungis þrír aðilar tóku þátt í liðakeppninni en fjórir einstaklingsflokki.

Líkt og árið áður reyndist ekki hægt að halda Jólamót Molduxa vegna Covid aðstæðna og því brugðið á það ráð að efna til fjáröflunarleiks þar sem allur ágóði af mótunum hafa runnið til körfuknattleiksdeildar Tindastóls. Árið 2020 tóku fjölmörg lið þátt og sama má segja um einstaklingaflokkinn en nú var stemningin í algjöru lágmarki þar sem aðeins þrír aðilar skráðu sig til leiks. En vegna mikils áhuga þessara þriggja náðust 14 lið í pottinn þar sem Molduxar sendu tíu lið, Agent MoMo þrjú og meistararnir frá því í fyrra, Bústaðaálfar, eitt. Fjórir tóku þátt í einstaklingskeppninni, hjónin Aldís Una Sigurðardóttir og Stefán Guðmundsson, Haraldur Leifsson og brottflutti Króksarinn Sigurður Jóhann Hallbjörnsson.

„En samt sem áður eru Molduxar stoltir að geta enn og aftur önglað saman smá upphæð, með hjálp þátttakenda, og lagt körfuboltadeildinni lið sem ekki veitir af í þessum Covid leiðindum. Með hjálp einhverrar vítisvélar af Netinu var sigurliðið dregið út og reyndist vera Agent MoMo þ(yngsta) liðið. Fær það gjafabréf upp á tíu manna flatbökuveislu á Hard Wok Cafe og gullpening um hálsinn.

Allir einstaklingarnir fengu verðlaun, Sigurður Jóhann fær tvær pizzur af matseðli hjá Sauðá, Stefán hamborgaramáltíð á N1 og Aldís sólskin í glasi og sælkerasamlokur hjá Lemon Sauðárkróki og Haraldi verður komið á óvart. Molduxar þakka þátttökuna og þessum frábæru fyrirtækjum að styrkja verkefnið. Áfram Tindastóll!,“ segir á Facebook-síðu Molduxa. Innkoma leiksins var 288.000 krónur og að viðbættum smá jólabónus millifærðu Molduxar inn á körfuboltadeildina kr. 300.000.

„Við erum verulega þakklátir fyrir að hafa loksins landað sigrinum. Við þurftum reyndar utanaðkomandi hjálp en þetta er langþráð,“ sagði Jóhannes Björn Þorleifsson, sá er bar ábyrgð á skráningu Agent MoMo liðanna á mótið. „Þetta er ellefu ára gamalt lið og eru þetta fyrstu verðlaunin sem það krækir í. Og þetta er líklega fyrsti peningurinn sem ég fæ á ævinni. Ég er gríðarlega stoltur af þessu og þakklátur.“

Jóhannes segir liðið vera hugarfóstur Magnúsar á Þverá, hann sé einvaldur í liðinu og honum fylgt í einu og öllu. „Við höfum aldrei æft en við höldum samkomur innan liðsins og gleði en þetta lið mun aldrei æfa,“ segir kappinn um leið og hann kveður með „Áfram Tindastóll!“

Ath. Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við villu í talningu sem má rekja til þess að Haraldur greiddi inn á reikning Molduxa en skráði sig ekki til leiks á netfang mótsstjóra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir