Ákærð fyrir fjárdrátt í opinberu starfi

Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur fyrrverandi starfsmanns Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir fjárdrátt í opinberu starfi. Í ákærunni kemur fram að hinni ákærðu sé gefið að sök að hafa dregið að sér og notað heimildarlaust í eigin þágu, rúmar 26 milljónir króna á þriggja ára tímabili. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Norðurlands vestra á morgun, þriðjudaginn 19. ágúst.

Í ákærunni kemur fram að á tímabilinu frá október 2009 til ársloka 2013 hafi ákærða millifært rúmar 24,8 milljónir króna í 56 færslum af reikningi í eigu sveitarfélagsins yfir á eigin bankareikninga. Jafnframt er henni gert að sök að hafa millifært rúmar 1,2 milljónir króna af reikningi Upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra og 200 þúsund krónur af reikningi Byggðasafns Skagafjarðar yfir á eigin bankareikninga.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakakostnaðar. Jafnframt er þess krafist að ákærða greiði Sveitarfélaginu Skagafirði tæpar 26,7 milljónir króna með vöxtum og sæti upptöku á rúmum 3,1 milljón króna sem embætti sérstaks saksóknara haldlagði af bankareikningi ákærðu.

Fleiri fréttir