Ákall til heilbrigðisráðherra frá Hollvinasamtökum Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki

 Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 er boðaður 244 milljón kr. niðurskurður á fjárframlögum til Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki eða um 30%.  Boðaður niðurskurður kemur ofan á niðurskurð ársins 2010. Öllum má ljóst vera að slíkur niðurskurður þýðir að grundvallarbreytingar verða á stofnuninni með uppsögnum tuga starfsmanna sem jafnframt mun leiða af sér óásættanlega þjónustuskerðingu fyrir íbúa Skagafjarðar.

Það er mat okkar að niðurskurðartillögurnar séu vanhugsaðar og muni þegar upp er staðið leiða til lítils sparnaðar ef nokkurs þegar að reiknað hefur verið inn í dæmið kostnaður af atvinnuleysisbótum, kostnaður sem flyst annað í heilbrigðiskerfinu, kostnaður sem flyst á sjúkratryggingar m.a. vegna ferða og tapaðar skatttekjur ríkissjóðs. Ofan á það bætist síðan sá kostnaður sem lendir á sjúklingum vegna vinnutaps, ferða og uppihalds og kostnaður sem lendir á fyrirtækjum og stofnunum í héraðinu vegna fjölgunar veikindadaga starfsmanna og barna sem af auknum ferða- og dvalartíma leiðir.

Það öllum ljóst að það þarf að spara í ríkisrekstri. Þær tillögur koma fram í fjárlagafrumvarpinu eru hins vegar afar ósanngjarnar og ekki ásættanlegar þar sem að niðurskurður á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki er margfalt það niðurskurðarhlutfall sem Heilbrigðisráðuneytinu er gert að spara. Þess vegna áköllum við þig, heilbrigðisráðherra, um að fara aftur yfir þessar tillögur, þar sem að við trúum því að ef þær eru ígrundaðar af réttsýni og skynsemi, að þá munir þú sjá að velferð íbúa í Skagafirði er ógnað með þessum tillögum og að ríkissjóður verður nær jafnsettur eftir sem áður.

f.h. Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki

________________________

Helga Sigurbjörnsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir