Ákvörðun ráðherra að gefa ekki út aflamark í úthafsrækju er ólögmæt

Sú ákvörðun sjávarútvegsráðherra að gefa ekki út aflamark í úthafsrækju á komandi fiskveiðiári er ólögleg samkvæmt lögfræðiáliti sem unnið hefur verið fyrir Landssamband íslenskra útvegsmanna og ráðuneytinu hefur verið kynnt.

Í álitinu segir m.a. að ákvörðun ráðherra „ ... stenst ekki lög um stjórn fiskveiða og er því ólögmæt og ógildanleg."

Þegar fiskveiðiárinu 2009/2010 lauk hafði allur 7000 tonna rækjukvótinn veiðst. Rétt er að halda því til haga að ákvörðun ráðherra um að gefa ekki út aflamark byggðist á því að veiðar á rækju hefðu á undanförnum árum verið undir leyfilegum heildarafla.

Útvegsmenn hafa bent á að á þessu séu eðlilegar skýringar. Hrun í afla á sóknareiningu og lækkun á afurðaverði samfara hækkandi olíuverði, sem rúmlega tvöfaldaðist á árunum 2004-2008, varð til þess að veiðar báru sig ekki. Í lögfræðiálitinu segir um þetta: „Er minnt á bráðabirgðaákvæði laganna um fiskveiðistjórnun sem aftengt hafa veiðiskyldu á úthafsrækju vegna erfiðleika í greininni. Svo virðist sem, auk annars sé algjörlega horft framhjá þessum staðreyndum við ákvarðanatöku ráðherra."

Í álitinu segir einnig að „ ... veigamikil og málefnaleg rök þurfi til að ráðherra sé heimilt að líta framhjá tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar og á það sérstaklega við þar sem tillaga stofnunarinnar var algjörlega hunsuð í því tilviki sem hér er til skoðunar."

/liu.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir