Álagning fasteignagjalda 2011 í Sveitarfélaginu Skagafirði
Samkvæmt upplýsingum frá Margeiri Friðrikssyni sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs, er hafin vinna við álagningu fasteignagjalda ársins hjá sveitarfélaginu. Heildarálagningarstofn lækkar frá árinu 2010 um 1%.
Breytingar á gjöldum frá fyrra ári lúta annars vegar að sorpeyðingu sem hækkar m.a. vegna þess að nú þarf að flytja sorpið um lengri veg til urðunar í nýju urðunarsvæði í Stekkjarvík í Austur-Húnavatnssýslu. Sorpeyðingargjald vegna íbúða í þéttbýli verður 14.000 kr., bújarðir með atvinnustarfsemi greiða 40.000 kr., þjónustubýli 20.000 kr. og sumarbústaðir 12.000 kr. Hins vegar er gerð breyting á lágmarks- og hámarksgildum varðandi útreikning vatnsgjalds pr. rúmmál.
Sveitarfélagið mun ekki senda út álagningarseðla fasteignagjalda 2011, nema til þeirra fasteignaeigenda sem eiga lögheimili utan sveitarfélagsins og þeirra fasteignaeigenda í sveitarfélaginu sem eru 60 ára og eldri. Öðrum er bent á að nálgast rafrænan álagningarseðil í Íbúagátt á heimasíðu sveitarfélagsins, þar sem einnig er hægt að óska eftir að greiða fasteignagjöldin með beingreiðslu af bankareikningi eða með boðgreiðslu af kreditkorti. Einstaklingum og fyrirtækjum er heimill aðgangur Íbúagáttinni. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins www. skagafjordur.is