Aldeilis ljómandi takk!!
Ekki hefur það farið framhjá neinum að matarblogg eru mikið að ryðja sér til rúms, og þar sem svo margt girnilegt er í boði ákvað Frökenin að ekki væri annað hægt en að slá upp veislu og prufa kræsingar netheima. Fyrsta bloggið sem Fab ákvað að rannsaka er ljomandi.is, en það vill svo skemmtilega til að sú sem stendur á bak við það blogg er engin önnur en brottflutti Skagfirðingurinn Valdís Sigurgeirsdóttir.
Myndirnar af Gulrótarkökunni og salatinu eins og það kemur fyrir á ljomandi.is
Bloggið er einstaklega fallegt og reynir Valdís eftir fremsta megni að halda sig hollustumegin í uppskriftavali og fer þetta eins hveiti- og sykurlaust og hægt er, en það finnst okkur hérna í heimshorni Fabjúlössmans nú ekki verra! Myndirnar sem bloggið skartar sem eru allar teknar af Valdísi sjálfri, eru hver annarri girnilegri og sýna vel að Valdísi er greinilega fleira til lista lagt en að elda góðann og hollann mat!
En eftir að hafa legið yfir blogginu í dágóðann tíma ákvað Frökenin að henni væri bara ekki annar kostur vænn en að blása til matarboðs! Eftir miklar vangaveltur og offramleiðslu á munnvatni náði Frökenin loksins að ákveða 2 uppskriftir til að bjóða upp á; Quinoa kjúklingasalat með engifersósu og Holla gulrótarkakan góða enda litu myndirnar svo aldeilis ekki illa út á blogginu:
Frökenin komst fljótt að því að það er ekki hlaupið að því að taka fallegar myndir af mat: Til vinstri má sjá framleiðslu Frk. Fab en til vinstri er svo myndin af ljomandi.is
Það sem vakti forvitni Fab við salatið var kínóa- en það er eitthvað sem hún hafði aldrei heyrt um. Svona til að reyna að útskýra þá er Kínóa svipað og bankabygg en á stærð við kúskús, og brokkaði Frökenin inn í matseldina allt annað en bjartsýn á bragðgæði þess... En mikið svakalega sem þessi dásemd kom þægilega á óvart og Fab sér sig tilneydda til að fara að bæta þessu inn í daglega matseld hérna í heimshorni Fabjúlössmans! Salatið var einstaklega auðvelt í undirbúningi, og alveg hreint stórkostlega ljúffengt! Matargestir Fröken Fab, sem kalla nú ekki allt ömmu sína þegar kemur að ljúfmeti, fussa helst við "rugli" eins og heilsufæði og vilja helst að smjör drjúpi af hnífapörunum gengu svo langt að segja að þetta væri besta salat sem þau hefðu smakkað! Meðaleinkunn matargesta: 8,5 af 10 mögulegum!
Til vinstri má sjá gulrótarkökuna sem Fabjúlöss galdraði fram við hliðna á fegurðinn sem finnst inni á ljomandi.is!
Gulrótarkakan var náttúrulega bara hreinræktuð dásemd að mati Fabjúlössar! Botninn sjálfur inniheldur hvorki hveiti, sykur né smjör og hollustan alveg í fyrirrúmi! Frökenin hefur nú alltaf miklað það fyrir sér að elda gulrótarköku, hvað þá hollustuútgáfuna af henni, en vippaði kökunni fram á núlleinni og matargestir bókstaflega önduðu kökunni að sér á meðan þau útskýrðu það á innsoginu að þau tryðu því nú bara varla að þetta væri heilsukaka, svo góð var hún! Meðaleinkunn matargesta: 10 af 10 mögulegum!
Fröken Fabjúlöss finnst hún ekki svikin eftir þennann matarrúnt sinn um netheima. Ljomandi.is er innlitsins virði og rúmlega það og mælir Frökenin eindregið með því að matgæðingar almennt sem og lesendur Fabjúlössmans rúnti inn á bloggið, velji sér eitthvað gómsætt að matbúa og njóti!