„Aldrei séð svo margt fé renna eins og rjóma niður brekkurnar“
Fjórða ráðstefnan um stuttrófukyn sauðfjár við Norður Atlantshaf var haldin á Blönduósi dagana 4.-8. september sl. Viðtal við Jóhönnu Pálmadóttur, frkvstj. Textílseturs Íslands og einn skipuleggjanda ráðstefnunnar, er í Feyki sem kom út í gær en hún sagði það hafa verið einstaklega ánægjulegt að upplifa undrun, gleði og þakklæti ráðstefnugesta. Að horfa á fólkið á öllum þeim stöðum sem voru heimsóttir var að hennar sögn ógleymanlegt.
Ráðstefnan var mjög vel heppnuð og fjölsótt en þátttakendur voru um 100 talsins, þar af yfir 60 erlendir gestir frá 13 löndum, en þeir sem komu lengst að voru frá Ástralíu og Suður-Afríku.
„Þau höfðu aldrei upplifað réttir, né réttarstörf eins og við þekkjum þau. Sannarlega eiga nokkur þeirra margt fé, en hvergi er rekið sameiginlega á afrétt eins og hér á Íslandi. Fyrir Grænlendinga sem eiga fé sem á ættir að rekja af þessu svæði var einstök upplifun að hitta bræðurna á Sveinsstöðum en þaðan kom flest af því fé. Ekta kvenfélagskaffi eins og við Íslendingar þekkjum, var þeim mjög framandi og héldu sumir að þeir væru að nálgast himnaríki!“ segir Jóhanna og heldur áfram:
„Þegar upp í Auðkúlurétt var komið veitti félag Sauðfjárbænda í A-Hún þeim smá hressingu fyrir hjartað og kom það sér vel í súldinni. Þegar féð kom niður stóðu margir með tárin í augunum yfir þeirri sjón, því þeir höfðu aldrei séð „svo margt fé renna eins og rjóma niður brekkurnar“ eins og einn sagði.“ Jóhanna segir gestina hafa dáðst að samvinnu fólksins og í heildina var allur dagurinn ótrúlegur í þeirra augum.
Viðtalið við Jóhönnu má nálgast í Feyki vikunnar.