Allir með. MYND AÐSEND
UMSS, Svæðisstöðvar íþróttahéraða og Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) boða til vinnustofu fyrir forsjáraðila, íþróttaþjálfara, starfsfólk skóla og áhugafólk um íþróttir. Á vinnustofunni ætlum við að ræða hvernig við getum komið af stað skipulögðum æfingum eða komið fötluðum og þeim sem finna sig ekki í almennum íþróttum betur inn í það íþróttastarf sem er nú þegar í boði í Skagafirði.
Hér í Skagafirði hefur verið takmarkað framboð í boði af íþróttum fyrir fatlaða en íþróttastarf í Skagafirði er mjög fjölbreytt og því mikil sóknarfæri í að efla íþróttir fyrir fatlaða.
Það er ósk um að sem flestir sjáið sér fært um að mæta í Hús frítímans 2. júní kl. 17:00 þar sem við getum átt góða stund, deilt sjónarmiðum okkar og tekið þátt í að efla íþróttastarf fyrir fatlaða í Skagafirði. Vinnustofan er fyrir alla þá sem hafa áhuga á því að efla íþróttastarf fyrir fatlaða og þá sem finna sig ekki í almennu íþróttastarfi.
Dagskrá:
Kl. 17:00 – Setning vinnustofu
Kl. 17:05 – Valdimar, Allir með
Kl. 17:20 – Annika, Júdódeild Tindastóls
Kl. 17:35 - Erindi frá foreldri
Kl. 17:50 - Anna Karolína, Íþróttasamband Fatlaðra
Kl. 18:05 - Vinnuhópar og umræður
Kl. 18:50 – Samantekt
*Athugið dagskrá er birt með fyrirvara um breytingar.
En hvað er þetta „Allir með“? Verkefnið „Allir með“ er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og ÍF (Íþróttasamband fatlaðra). Verkefnið er þriggja ára verkefni sem er liður í að ná markmiðum 30. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar eru skýr ákvæði um viðeigandi aðlögun allra í íslensku samfélagi.
Verkefnið er styrkt af Félags- og vinnumálaráðuneytinu, Heilbrigðisráðuneytinu og Mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Íþróttahreyfingin sér um framkvæmd verkefnisins sem verður unnið á tímabilinu 2023 – 2025.
Hvert er markmiðið?
Að fjölga tækifærum fatlaðra til íþróttaiðkunar í samstarfi við íþrótthreyfinguna.
Að öll börn og ungmenni eigi möguleika á því að taka þátt í íþróttum í sínu nær umhverfi í samræmi við óskir sínar og þarfir – með viðeigandi aðlögun.
Að allir skulu eiga kost á að öðlast reynslu af þátttöku í íþróttum og verða sér úti um leikni til að þróast í öryggi og góðum félagsskap
Verkefnið fór af stað í byrjun árs 2023 og var Valdimar Gunnarsson ráðinn verkefnisstjóri og hefur hann aðsetur á Skrifstofu ÍF