Allt að 30 % niðurskurður á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki

Samkvæmt heimildum Feykis mun niðurskurður á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkrók nema allt að 30% fyrir fjárlagaárið 2011 en fjárlög verða lögð fram á alþingi síðar í dag. Mótmæli voru við stofnunina fyrr á þessu ári er heimamenn mótmæltu því að stofnunin fékk á síðasta ári eina mestu skerðingu allra stofnanna. Þá var skorið niður um 11%

Við mótmælin fyrr í vor sagði þáverandi ráðherra Álfheiður Ingadóttir að við gerð næstu fjárlaga, það er ársins 2011, yrði þessi skekkja leiðrétt. Samkvæmt heimildum blaðsins voru fjárlög þau sem nú verða lögð fram og tillögur í heilbrigðiskerfinu unnar á meðan Álfheiður var enn ráðherra.

Vísir greindi frá því fyrr í dag að skera ætti niður um 6% í velferða- og heilbrigðismálum en að í almennri þjónustu hins opinbera verði skorið niður um 9%. Þá greindi Vísir frá því að meira verið skorið niður hjá einstaka heilbrigðisstofnunum og að í einhverjum tilvikum hlypi sá niðurskurður á tugum prósenta.

-Ef þessar tölur eru réttar þá er það svívirða og aðför að stofnuninni. Stofnunin hefur nú þegar orðið fyrir verulegri skerðingu og við stóðum í þeirri meiningu að stefnt væri að leiðrétta þá skekkju sem var í fjárlögum 2010 núna í fjárlögum 2011.  Þetta mun klárlega hafa áhrif á heilbrigðisþjónustu á svæðinu og skerða öryggi þeirra sem þar búa, segir Stefán Vagn Stefánsson, formaður Byggðaráðs.

Hvernig munið þið bregðast við? –Það er ljóst að við þurfum að fylgja þessu máli hart eftir því við þetta verður ekki unað. Við þurfum að kalla eftir útskýringum frá ráðuneytinu ef þetta reynist rétt sem ég vona að sé ekki. Eins bind ég vonir við að þingmenn kjördæmisins komi að þessu máli allir sem einn þar á meðal heilbrigðisraðherra, bætir Stefán við.

Hafsteinn Sæmundsson, forstöðumaður, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir