Allt vitlaust að gera í dekkjaskiptunum

Nóg að gera í dekkjunum. Hér er Óskar að herða á felguboltunum. Mynd: PF.
Nóg að gera í dekkjunum. Hér er Óskar að herða á felguboltunum. Mynd: PF.

Mikið hefur verið að gera á dekkjaverkstæðum landsins undanfarið enda sá tími ársins að vetrardekkin ættu að vera komin undir alla bíla. Veturinn hefur minnt á sig og hálka víða á vegum landsins. Hjá Hjólbarðaþjónustu Óskars, sem staðsett er á Sauðárkróki, var mikið um að vera í morgun er blaðamaður leit við og hver bíllinn af öðrum afgreiddur af fagmennsku.

 Hjólbarðaþjónustan er rekin af þeim Óskari Halldórssyni og Björgu Einarsdóttur sem bæði vinna á verkstæðinu ásamt Ingva syni þeirra.

Björg segir að mikið sé að gera þessa dagana. Hér er hún að jafnvægisstilla. Mynd: PF

 Björg segir að mikið sé að gera þessa dagana og hefur svo verið undanfarnar vikur. Margir hafi verið forsjálir og komið áður en snjóaði en pantanir síst minnkað eftir að snjóaði í síðustu viku.

Nagladekkjatímabilið er frá 1. nóvember til 14. apríl ár hvert. Þess utan er ekki leyfilegt að keyra á þeim nema þess gerist þörf vegna akstursaðstæðna.

Ingvi lætur hendur standa fram úr ermum í dekkjaskiptunum, enda sá tími ársins. Mynd: PF

 Ekkert sérstakt tímabil gildir fyrir ónegld vetrardekk, heilsársdekk eða harðkornadekk og má keyra á þeim allan ársins hring.

Á vef Samgöngustofu segir að afar brýnt sé að ökumenn noti ávallt dekk sem hæfa þeim aðstæðum sem þeir aka við hverju sinni. Samkvæmt umferðarlögum ber ökumönnum ekki skylda til að nota vetrarhjólbarða þegar vetrarfærð ríkir þó að það sé eindregið mælt með því.

Þó er vert að vekja athygli á því að samkvæmt lögum ber ökumaður ábyrgð á því að aka um á dekkjum sem eru í samræmi við aðstæður hverju sinni, óháð árstíðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir