Alþjóðlegi safnadagurinn á fimmtudaginn
Alþjóðlegi safnadagurinn er á fimmtudaginn, 18. maí. Í tilefni hans verður gestum boðið að skoða gamla bæinn í Glaumbæ án endurgjalds. Bærinn verður opinn frá kl. 10:00-16:00. Frá kl. 14:00-16:00 verður stemning í baðstofunni, kveðnar stemmur, gamalt handbragð verður sýnt og börnum kenndir leikir sem leiknir voru í gamla daga.
Ef einhvern langar til að vita hvað starfsmenn safnsins eru annað að aðhafast og hvað er framundan svara þeir spurningum gesta um það á sama tíma, kl. 14:00-16:00, í norðurstofunni i Áshúsinu/Áskaffi.
Í tilefni safnadagsins verður Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi opið sunnudaginn 21. maí frá kl. 13:00 til 17:00. Sérstök athygli er vakin á Sumarsýningu safnsins 2016 eftir Önnu Þóru Karlsdóttur, sem ber heitið “Vinjar” og eru allra síðustu forvöð að sjá hana. Eins og venja er til fá gestir leiðsögn um safnið eftir því sem hver vill.