Alþjóðlegi safnadagurinn á laugardaginn

Alþjóðlegi safnadagurinn verður haldinn næstkomandi laugardag, þann 18. maí. Í tilefni hans skipulegja söfn um allan heim dagskrá þennan dag en á síðasta ári voru þátttakendur um 40.000 í 158 löndum, að því er segir á Facebooksíðu Alþjóðlega safnadagsins.

Í tilefni dagsins verður gestum boðið að skoða gamla bæinn í Glaumbæ án endurgjalds. Í baðstofunni verður stemning frá klukkan 13-15 en þá ætla prúðbúnar konur í Pilsaþyt að mæta með handavinnuna, Þá munu félagar úr Kvæðamannafélaginu Gná kveða stemmur og leggjabú verður á hlaðinu fyrir börn sem vilja prófa að leika sér eins og í gamla daga.

Bærinn og Áskaffi verða opin frá klukkan 12-16.

Samgöngusafnið í Stóragerði býður gestum einnig að heimsækja safnið endurgjaldslaust milli klukkan 11 og 18. Þar verður boðið upp á traktorsvöffluhlaðborð þar sem fólk borgar 1000 kr. á mann og borðar á sig traktorsgat og auðvitað fylgir kaffi með, að því er segir í auglýsingu frá safninu. Frítt er fyrir 10 ára og yngri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir