Alþjóðlegi safnadagurinn er á laugardaginn

Starfsmenn Byggðasafns Skagfirðinga. Frá vinstri: Hrönn Birgisdóttir, Inga Katrín Magnúsdóttir, Ylfa Leifsdóttir, Berglind Þorsteins og Ásta Hermannsdóttir. MYND AF FB
Starfsmenn Byggðasafns Skagfirðinga. Frá vinstri: Hrönn Birgisdóttir, Inga Katrín Magnúsdóttir, Ylfa Leifsdóttir, Berglind Þorsteins og Ásta Hermannsdóttir. MYND AF FB

Alþjóðlegi safnadagurinn verður haldinn hátíðlegur 18. maí næstkomandi. Af því tilefni verður frítt að heimsækja Byggðasafn Skagfirðinga í Glaumbæ á milli kl. 11-15. Þá verður sömuleiðis opið hjá Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna að Reykjum í Hrútafirði milli kl. 13 og 16 þar sem m.a. verður boðið upp á barnaleiðsögn um hákarlaveiðar.

Hjá Byggðasafni Skagfirðinga verður hægt að skoða sýningarnar í Glaumbæ og Gilsstofu og fara í safnabingóið. Þá verður opið í kaffistofunni í Áshúsi. Boðið er upp á leiðsögn um safnið kl. 12.

Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna býður upp á barnaleiðsögn um hákarlaveiðar klukkan 14:00 á laugardaginn. Ókeypis verður inn á safnið og allir velkomnir að Reykjum.

„Yfirskrift safnadagsins í ár, Söfn í þágu fræðslu og rannsókna, snýr að mikilvægi menningarstofnana þegar kemur að því að bjóða upp á heildræna fræðslu og tækifæri til þekkingaröflunar. Söfn þjóna samfélaginu sem kraftmiklar fræðslumiðstöðvar, þar sem þau glæða forvitni, sköpunargleði og gagnrýna hugsun. Nú í ár er vakin athygli á þætti safna í að styðja við rannsóknir og skapa vettvang til að kanna og deila hugmyndum. Hvort sem viðfangið er saga eða listir, tækni eða vísindi, þá eru söfn vel í stakk búin til að efla skilning og þekkingu okkar á heiminum í gegnum fræðslu og rannsóknir,“ segir í færslu á Facebook-síðu Byggðasafn Skagfirðinga.

Alþjóðlegi safnadagurinn

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn hátíðlegur 18. maí ár hvert í samstarfi FÍSOS og Íslandsdeildar ICOM. „Markmiðið með deginum er að kynna og efla safnastarf á Íslandi en þá eru söfn hvött til að standa fyrir viðburðum og jafnvel ókeypis aðgangur í tilefni dagsins. Þar sem um alþjóðlegan viðburð er að ræða eru þátttakendur dagsins í 140 löndum og allt að 35.000 söfn sem halda upp á daginn. Þann 18. maí næstkomandi er söfn hvött til að taka þátt í Alþjóðlega safnadeginum og þema í ár „Söfn, sjálfbærni og vellíðan“ sem varpar ljósi á valin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Heilsa og vellíðan: Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir fólk á öllum aldri, með tilliti til andlegrar heilsu og hættunnar sem felst í félagslegri einangrun.

Aðgerðir í loftslagsmálum: Grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, draga markvisst úr kolefnislosun á norðurhveli jarðar og minnka mengun á suðurhvelinu.

Líf á landi: Vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi, sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og gefa röddum frumbyggjaþjóða meira vægi í umræðunni,“ segir á síðu Safnaráðs.

Sjá nánar >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir