Alvarlegt umferðarslys í Víðidal
Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti karl og konu er slösuðust alvarlega í umferðaslysi á Norðurlandsvegi í Víðidal í gærkvöldi. Mikil hálka var þegar slysið varð.
Atvikið varð með þeim hætti að bifreið hafnaði utan vegar og fólk úr annarri bifreið stansaði til að aðstoða þau. Þriðja bifreiðin kom svo og stefndi á þann sem stöðvaði en ökumaðurinn reyndi að forðast árekstur og ók útaf með þeim afleiðingum að tvennt varð fyrir bifreiðinni.
Kallað var eftir sjúkrabílum frá Blönduósi og Hvammstanga ásamt tækjabíl, en ákveðið var að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar til að flytja hina slösuðu á Landsspítalann í Reykjavík.
Að sögn Lögreglunnar á Blönduósi myndaðist mikil hálka á vegum í Húnavatnssýslum vegna frostrigningar og þoku. Enn er hált á vegum en segir Lögreglan að nú sé meira frost og því ekki eins slæmt og í gær.