Ályktun kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi um sjávarútvegsmál
Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sem kom saman til fundar á Akranesi þann 7. maí sl., sendi frá sér svohljóðandi ályktun um sjálvarútvegsmál:
„Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi ályktar að því verði eindregið beint til forystumanna Samfylkingarinnar að í komandi viðræðum stjórnmálaflokka um stjórn fiskveiða verði eftirfarandi sjónarmið höfð að leiðarljósi:
- Auðlindir hafsins eru þjóðareign og stefna Samfylkingarinnar getur með einföldum hætti lagt grunn að sátt um nýtingu hennar.
Það er óásættanlegt að atvinnurekendur í sjávarútvegi standi á sjávarbakkanum og selji aðgang að auðlindinni á fullu verði en alþingismenn standi í hrossakaupum um hvað útgerðin eigi að greiða fyrir aðganginn.
Það er niðurlægjandi fyrir þjóðina sem eiganda auðlindarinnar að stjórnvöld telji sig nauðbeygð til að semja við stórútgerðir til að forða byggðarlögum og fólki frá afleiðingum ákvarðana þeirra um að leggja niður útgerð og fiskvinnslu.
Útgerðarmenn hafa alltaf beitt þeim áróðri að þeir verði gjaldþrota ef þjóðin leysir eignarhaldsvandann með því að taka sjálf þátt í viðskiptunum. Sú stefnumörkun sem Samfylkingin fylgir byggist þó á markaðsleið.
Útboð langtímaaflaheimilda, t.d. 5% á ári, með fyrningarleið leysir á einfaldan hátt eignarhaldsvandann. Útgerðarmenn verðleggja þá sjálfir aðganginn með því að skuldbinda sig til að greiða fast gjald af lönduðum afla en geta haldið áfram viðskiptum og óbreyttu fyrirkomulagi að öðru leyti. Þeir þurfa að sækja sér 5% árlega á markaðinn annað hvort frá ríkinu eða öðrum aðilum í útgerð.
Allar aflaheimildir verða jafngildar og fyrnast um 5%, alltaf, líka þær sem ríkið selur. Þannig verður leiðin einföld. Það er fráleitt að slík leið kollvarpi útgerð á Íslandi. Þessi leið opnar fyrir möguleika til svæðisbundinna útboða aflaheimilda til að styrkja sjávarbyggðir. Hún staðfestir þjóðareign á auðlindinni, tryggir jafnræði til úthlutan aflaheimilda og fullt verð fyrir þær.
Stefna ber að stofnun auðlindasjóðs og eðlilegri gjaldtöku fyrir auðlindanýtingu til að fjármagna samfélagsleg verkefni, uppbyggingu innviða og rannsóknir í þágu atvinnuvega. Eitt af hlutverkum auðlindasjóðsins ætti að vera að styðja sjávarbyggðir og atvinnu í þeim.“