Ályktun um samgöngumál og krafa um brúargerð

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps samþykkti á fundi sínum í gær ályktun um samgöngumál þar sem sú krafa er gerð til stjórnvalda að auknu fjármagni verði veitt til vega innan Húnavatnshrepps.

Á sama fundi var samþykkt sú krafa að Vegagerð Ríkisins byggi brú yfir Vatnsdalsá við Grímstungu sem allra fyrst, en eins og greint var frá í Feyki hrundi brúin þar í fyrradag.

Ályktunin um samgöngumál, sem oddviti lagði fram á fundinum og sveitarstjórn samhljóða, var svohljóðandi:

  1. fundur sveitarstjórnar Húnavatnshrepps samþykkir eftirfarandi ályktun um vegamál:

Greiðar samgöngur sem byggja á góðu vegakerfi eru nauðsynlegar forsendur fyrir uppbyggingu atvinnulífs og viðunandi afkomu heimila og fyrirtækja. Flestir tengi- og héraðsvegir í Húnavatnshreppi uppfylla engan veginn þær kröfur og fer ástand þeirra versnandi ár frá ári vegna ónógs viðhalds. Óhætt er að fullyrða að oft á tíðum eru vegirnir hættulegir vegfarendum og ættu að merkjast sem slíkir.

Það slys sem varð þegar brúin yfir Vatnsdalsá við Grímstungu hrundi undan flutningabifreið er skýrt dæmi um hversu ástandið er alvarlegt og má telja það mikla mildi að ekki varð úr stórslys.

Umferð erlendra ferðamanna hefur vaxið ár frá ári og uppbygging þjónustu við ferðamenn er nauðsynleg viðbót við atvinnulíf í héraðinu. Sú staðreynd eykur þá knýjandi þörf að fjármagni sé veitt til viðhalds og uppbyggingu vega.

Því gerir sveitarstjórn Húnavatnshrepps þá kröfu til stjórnvalda og þingmanna Norðvesturskjördæmis að brugðist verði við og auknu fjármagni verði veitt til viðhalds vega innan Húnavatnshrepps og á næstu árum verði stóraukin áhersla lögð á að leggja bundið slitlag á þá.

 

Fleiri fréttir