Andlát - Vala Mist

Á aðfaranótt laugardags kvaddi Vala Mist Valsdóttir þennan heim en hún fæddist þann 12. janúar 2017 eftir erfiðar síðustu vikur í móðurkviði. Höfðu mæðgurnar verið í ströngu eftirliti frá því að hraðtaktur kom í ljós í mæðraskoðun á 34 viku. Stúlkan fór ásamt foreldrum sínum, Lilju Gunnlaugsdóttur og Vali Valssyni, til Svíþjóðar þar sem gera þurfti „opna hjartaaðgerð“ á henni.

Á Upplýsingarsíðu Völu Mistar Valsdóttur og fjölskyldu á Facebook kemur fram að fyrir viku síðan hafi komið í ljós að Vala Mist væri með bjúg á heilanum sem þýddi að hann hafði orðið fyrir súrefnisskorti. Kom það í kjölfar þess að þann 18. nóvember fékk Vala Mist krampa/flog og hætti að anda sem leiddi til þess að hún fór í hjartastopp. 

Í nýjustu færslunni, sem sett var fram í morgun, segir að Vala Mist hafi kvatt aðfaranótt laugardags í faðmi foreldranna í fallegri stund.

„Við þökkum allan hlýhug og góðar kveðjur. Þeir sem vilja minnast hennar er bent á endurhæfinguna á Sauðárkróki, en þar átti Vala Mist margar góðar stundir og sigra, því viljum við aðstoða þau að bæta tæki og aðstöðu. Blóm og kransar eru afþökkuð og myndum við frekar vilja að þið mynduð leggja inn á reikning endurhæfingarinnar. Reikningurinn er 0349 13 250100 og kt.5712972139. Valur Valsson Lilja Gunnlaugsdóttir.“

Feykir vottar fjölskyldu Vals og Lilju innilega samúð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir