Anna Dóra Antonsdóttir skrifar um Skárastaðamál

Út er komin hjá bókaforlaginu Espólín bókin Þar sem skömmin skellur - Skárastaðamál í dómabókum eftir Önnu Dóru Antonsdóttur. Sagan gerist í Miðfirði upp úr miðri 19. öldinni og fjallar um sakamál sem kennt hefur verið við bæinn Skárastaði í Austurárdal. Bókin byggir á dómabókum og fleiri samtímaskjölum en þar sem gögnum sleppir tekur höfundurinn við og fyllir upp í eyðurnar, eins og segir á heimasíðu forlagsins.

Bókaútgáfan Espólín forlag var stofnuð á síðasta ári af þeim Önnu Dóru Antonsdóttur og syni hennar, Teiti Má Sveinssyni, en Anna Dóra rak áður Adan bókaútgáfa og gaf þar út bækur sínar. Anna Dóra var búsett á Frostastöðum í Skagafirði um 20 ára skeið og stundaði búskap en að öðru leyti hefur kennsla og kennsluráðgjöf verið hennar ævistarf, auk ritstarfanna en hún hefur gefið út nokkrar bækur um sögulegt efni auk barnabóka og smásagnasafns. Espólín, nafnið á forlaginu, hefur beina tengingu til Frostastaða en það er kennt við sýslumanninn Jón Espólín sem bjó á Frostastöðum síðustu ár ævinnar.

Feykir hafði samband við Önnu Dóru í tilefni af útgáfu bókarinnar og spurði hana fyrst út í tilganginn með stofnun eigin bókaforlags. „Tilgangurinn með stofnun forlagsins,“ segir Anna Dóra, „er að gefa út mínar bækur og kannski fleiri höfunda ef svo ber undir. Ástæðan er sú að þá hefur höfundurinn fullan rétt á sínu efni ef hann gefur út sjálfur og getur ráðið útliti og gerð bókar að eigin vild, það er mikill kostur. Það er ekki auðvelt að komast að hjá stórum forlögum og ég hef raunar ekki góða reynslu af því.“Anna Dóra Antonsdóttir.

Anna Dóra gaf út sína fyrstu bók, Voðaskotið, árið 1998, en áður hafði hún skrifað talsvert fyrir skúffuna og einnig nokkuð af námsefni. Aðspurð um hvatann að skriftunum segist hún varla vita hver hann sé. „Kannski forvitnin fyrst, forvitni um það sem liðið er, að kynnast nýju efni og sjá e.t.v. nýjar hliðar á sögulegum atburðum. Þegar ný þekking er síðan komin vill maður að fleiri njóti og viti. Ég hef mest skrifað um söguleg efni, oft sótt mér efni langt aftur í aldir. Áhugaval mitt í sagnfræðinni voru miðaldir og MA ritgerð mína skrifaði ég um miðaldakonuna Þórunni Jónsdóttur (Arasonar) á Grund í Eyjafirði.“

Um val sitt á viðfangsefni nýju bókarinnar segist höfundurinn hafa haft áhuga á þessu máli lengi og líklega hafi grein eftir Sverri Kristjánsson kveikt neistann. „Um Illugastaðamál hafa verið skrifaðar margar bækur en engin um Skárastaðamálin sem voru á ferðinni 30 árum seinna. Páll Kolka læknir sagði í bók sinni Föðurtún að Skárastaðamálið væri hið síðasta í röð þeirra illræmdu glæpamála, sem voru á döfinni í Húnavatnsþingi á 19. öld. Svo er ég nú hálfur Húnvetningur," segir Anna Dóra. 

Í dag, þriðjudaginn 16. apríl, milli 17:00-19:00, verður haldið hóf til að fagna útgáfu bókarinnar í Mengi, Óðinsgötu 2, þar sem bókin verður kynnt og boðið upp á léttar veitingar og tónlist í bland.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir