Annað upplag Skaðamanns eftir Jóhann F. Arinbjarnarson er komið í búðirnar

Fyrsta skáldsaga Jóhanns Frímanns Arinbjarnarsonar, búsetts á Laugarbakka, kom út í maí, á sama dag og höfundur varð stúdent frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Sagan þróaðist á fjögurra ára tímabili. Fyrsta upplagið er uppselt, og annað upplag er komið á sölustaði.

Sagan Skaðamaður segir frá Alla þolenda eineltis og félögum hans í ónefndu sjávarplássi á Íslandi. Áður en Alli veit af er hann staddur í atburðarás sem hann getur ekki stöðvað. Þegar dularfullir atburðir eru að gerast, er enginn óhultur. Hefnd liggur í lofti. Þeir sem stríddu Alla falla frá, einn af öðrum, og Alli liggur undir grun. En ekki er allt sem sýnist.

Sagan notar tækni hryllingssögunnar og hryllingsmynda, þar sem tilviljunarkennt ofbeldi er allsráðandi. Hér liggur þráðurinn á milli eineltis og ofbeldis, hvort tveggja röklaust og grimmt.

Einar Már Guðmundsson skrifaði um bókina: Leggið nafn þessa unga manns á minnið. Lesið þessa bók og fylgist með því sem framundan er.

Fleiri fréttir