Annasöm vika á hálendisvaktinni
Undanfarin sumur, eða frá árinu 2006, hefur hálendisvakt verið starfandi á fjórum stöðum á hálendi Íslands. Verkefnið er skipulagt af Slysavarnafélaginu Landsbjörgu en björgunarsveitir landsins sjá um að útvega mannskap og búnað til verksins. Er markmiðið að sinna ákveðnu forvarnarstarfi með því að leiðbeina og upplýsa ferðamenn um aðstæður á hálendinu auk þess að stytta viðbragðstímann ef óhapp eða slys ber að höndum og tryggja þannig betur öryggi ferðamanna. Pistilinn sem hér fer á eftir sendi Hafdís Einarsdóttir okkur en í síðustu viku var einmitt hópur frá Skagfirðingasveit á vaktinni.
Síðastliðna viku dvaldi hópur úr Skagfirðingasveit í Landmannalaugum og stóð þar hálendisvakt. Hópurinn taldi sex manns virku dagana en átta um helgina auk þess sem við nutum aðstoðar og samveru Jan sem er norskur og er meðlimur í Rauða krossinum í Noregi.
Vikan leið hratt enda nóg um verkefnin. Strax á fyrsta degi þurfti að sækja veika konu upp í Hrafntinnusker og á öðrum degi fengum við erfitt böruútkall í hraunið við Landmannalaugar. Á þriðjudegi var óveður og þurfti að loka Laugaveginum auk þess sem við könnuðum vatnsmagn í ám. Þá þurfti að draga einn bíl upp úr kvíslinni við Landmannalaugar en hann hafði drepið á sér vegna vatnsmagns í ánni. Ein kona meiddist á ökkla uppi við Brennisteinsöldu og var haldið að hún væri ökklabrotin og því ekið til móts við sjúkrabíl með hana.
Miðvikudagurinn var mjög svipaður, leiðinlegt veður og þörf á eftirliti með vegum, auk þess sem við fórum í rútur og ræddum um veðrið við ferðamenn sem komu upp í Landmannalaugar með rútum. Á fimmtudegi höfðum við afskipti af utanvegaakstri, skimuðum eftir pari sem ekkert hafði spurst til síðan fyrir óveður og aðstoðuðum tvær konur, í sinni hvorri ferðinni, með snúinn ökkla en þær gengu báðar með stuðningi niður að svæðinu.
Á föstudegi var þriðji sjúkraflutningur vikunnar en þá fékk maður á tjaldsvæðinu flogakast og á laugardeginum kom svo stærsta útkallið en þá hafði kona slasast illa á baki og hendi uppi á Bláhnjúk. Okkur barst góður liðsauki í útkallið en í þann mund sem það kom ók stór hluti úr stjórn Landsbjargar í hlað í þeim tilgangi að hitta okkur og gefa okkur eitthvað með kaffinu. Þrír þeirra bættust í hóp okkar og komu á slysstað. Þar sem útlit var fyrir erfiðan böruburð niður að Landmannalaugum voru sveitir af öllu Suðurlandinu kallaðar út en til allrar lukku hafði þyrla Landhelgisgæslunnar tök á að koma og flytja konuna á sjúkrahús.
Á leiðinni heim fór svo stýrisendi í Econlinernum okkar og þurfti að sækja hann upp á Kjalveg, rétt við gatnamótin að Kerlingafjöllum.
Það er ómetanleg lífsreynsla að taka þátt í þeim verkefnum sem koma upp í hálendisgæslu og fá að kynnast öllu því frábæra fólki sem starfar á hálendinu. Okkur barst liðsstyrkur frá landvörðum, skálavörðum og öðrum þeim sem tök höfðu á þegar á reyndi og viljum við þakka öllum þeim sem aðstoðuðu okkur á einhvern hátt kærlega fyrir.
Fleiri myndir frá vaktinni má sjá á Facebooksíðu Skagfirðingasveitar.