Appelsínugul viðvörun

Lítið lát virðist ætla að verða á óveðurslægðunum sem ganga yfir landið þessa dagana. Nú hefur Veðurstofa Íslands sent frá sér appelsínugula viðvörun fyrir stóran hluta landsins og tekur hún gildi kl. 14:00 í dag á Norðurlandi vestra.

Veðurspáin fyrir svæðið er á þá leið að það gangi í norðaustan og síðar norðan hvassviðri, 18-25 metra á sekúndu, með vindhviðum yfir 40 m/s í vindstrengjum við fjöll. Þessu fylgir snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni og engu ferðaveðri. Hætta getur orðið á foktjóni. Þá bendir Veðurstofan á að nú er nærri stórstreymt og vegna lágs loftþrýstings og áhlaðaneda má búast við óvenju hárri sjávarstöðu á flóði. Einnig getur verið há öldhæð sumsstaðar við landið.

Varmahlíðarskóli hefur sent frá sér tilkynningu um að kennslu verði hætt klukkan 10:35 í dag, mánudaginn 13. janúar. Skólabílar aka börnum heim. Einnig fellur skólahald niður í Húnaþingi vestra, bæði grunnskóla og leikskóla, en þar loka skólarnir klukkan 13:00 í dag. Foreldrar eru beðnir um að sækja nemendur fyrir þann tíma eða koma skilaboðum til skólans megi nemendur fara heim á eigin vegum fyrr. Enginn skólaskstur var í Grunnskóla Húnaþings vestra í dag. Þá verður skólahald lagt niður í Grunnskólanum austan Vatna á Hofsósi kl. 11:10 og á Hólum kl. 12:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir