Árleg inflúensubólusetning
Á næstunni verður bólusett gegn inflúensu á heilsugæslustöðvum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Í auglýsingum frá Heilbrigðisstofnuninni kemur fram að allir einstaklingar eldri en 60 ára ættu að láta bólusetja sig svo og öll börn og fullorðnir með langvinna hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdóma, sykursýki, illkynja sjúkdóma og aðra ónæmisbælandi sjúkdóma. Þá er æskilegt að heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í framantöldum áhættuhópum fái bólusetningu svo og þungaðar konur. Einnig eru lungnabólusetningar ráðlagðar einstaklingum eldri en 60 ára.
Inflúensa er árviss sjúkdómur sem gengur yfir norðurhvel jarðar á tímabilinu október til mars og er hún 2–3 mánuði að ganga yfir. Sambærilegur faraldur gengur síðan yfir á suðurhveli jarðar á tímabilinu júní til október. Í þungum faraldri eykst álag á heilbrigðiskerfið og í samfélaginu fjölgar fjarvistum vegna veikinda frá vinnu og skóla. Dauðsföllum hjá öldruðu fólki fjölgar einnig í kjölfar inflúensunnar að því er segir á doktor.is.
Inflúensan er veirusjúkdómur og eru veirurnar sem valda af stofnum A, B og C. Oftast er það inflúensa A sem veldur árlegum inflúensufaraldri. Þar sem veiran er mjög breytileg eru inflúensufaraldrar árlegir og því nauðsynlegt að endurnýja bólusetninguna árlega segir einnig á doktor.is en þar má fræðast nánar um sjúkdóminn.
Bólusett verður sem hér segir:
Á Heilsugæslustöðinni á Blönduósi:
Þriðjudaginn 26. september klukkan 11:00-13:00.
Fimmtudaginn 28. september klukkan 13:00-15:00.
Föstudaginn 29. september klukkan 10:00-12:00.
Á Heilsugæslustöðinni á Skagaströnd:
Fimmtudaginn 28. september klukkan 9:00-11:00.
Á Heilsugæslustöðinni á Sauðárkróki:
Þriðjudaginn 26. september klukkan 13:30-15:00.
Miðvikudaginn 27. september klukkan 13:30-15:00.
Þriðjudaginn 10. október klukkan 13:30-15:00.
Á Heilsugæslustöðinni á Hofsósi:
Þriðjudaginn 3. október frá klukkan 15:30.