Ársmiði í Glaumbæ
Sú nýbreytni hefur verið tekin upp hjá Byggðasafni Skagfirðinga að þegar lögheimilisíbúar Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar kaupa sér aðgangsmiða á safnið í Glaumbæ gildir miðinn í eitt ár frá kaupum hans óháð fjölda heimsókna. Með þessu er vonast til að fólk venji komur sínar sem oftast á safnið, mæti á viðburði með fjölskyldu og gesti, og taki þannig virkari þátt í starfsemi safnsins.
Þessi nýbreytni er liður í endurnýjaðri safnstefnu Byggðasafnsins fyrir tímabilið 2019-2023 sem er í vinnslu.
Í safnstefnunni er ætlunin að leggja ríka áherslu á að virkja og efla tengsl safnsins við nærsamfélagið með markvissum hætti. Það verður m.a. gert með því að leggja aukna áherslu á að ná til barna, ungmenna og fjölskyldufólks t.d. með því að standa fyrir fleiri viðburðum og vera sýnilegri á samfélagsmiðlum. Jafnframt því að efla tengsl við stofnanir og félagssamtök í á svæðinu. Með því að láta aðgangsmiða heimamanna gilda í heilt ár er vonast til að það virki hvetjandi á fólk til að venja komur sínar oftar á safnið og að íbúar svæðisins upplifi ríkari hlutdeild í viðhaldi og varðveislu á menningararfi sínum - og að safnið veiti þeim innblástur og ánægju.
Verið velkomin í Glaumbæ!
/ Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.