Ársþing UMSS haldið í síðustu viku

Í síðustu viku  var 91. ársþing Ungmennasambands Skagfirðinga haldið á Mælifelli á Sauðárkróki að viðstöddum fulltrúum aðildarfélaga og gestum. Fram kom að sambandið var rekið með tæplega 115 þúsund króna hagnaði á síðasta ári.

Auk venjulegra aðalfundastarfa ávörpuðu gestir þingið en Viðar Sigurjónsson fræðslustjóri ÍSÍ hvatti aðildarfélög til að aðlaga sig að fyrirmyndafélagskerfi ÍSÍ en það getur haft fjárhagslega hagræðingu fyrir félögin og ekki síst til bóta í skipulagi þeirra. Viðar sem þekktur er fyrir að sækja þing héraðssambanda um allt land og varpa fram vísum, brá ekki út af vananum frekar en áður og sendi þingheim skemmtilegar stökur.

Sæmundur Runólfsson framkvæmdastjóri UMFÍ ávarpaði einnig þingið og  afhenti hann þeim hjónum Viggó Jónssyni og Rannveigu Helgadóttur starfsmerki UMFÍ fyrir vel unnin störf í þágu íþróttamála en þau hafa verið einkar öflug í starfi Tindastóls í ýmsum íþróttagreinum.

Þá var Drangeyjarbikarinn færður UMSS til varðveislu þar sem Skagfirðingar voru duglegir að synda til lands úr Drangey. Sarah-Jane og Heiða Jóhannsdóttir fengu viðurkenningu fyrir þeirra afrek en þær hafa báðar þreytt sundið.

Á þinginu spunnust miklar umræður um svokallað TÍM kerfi sem nokkrum félögum þótti hafa verið illa kynnt fyrir þeim en eftir þeim átti úthlutun styrkja frá sveitarfélaginu Skagafirði að fara. Samþykktar voru reglur á þinginu sem ákvarða skiptingu þeirra til aðildarfélaga UMSS.

Stórhuga eru ungmennafélagar í Skagafirði því ákveðið var að sækja um að halda Unglingalandsmót árin 2013 og 2014 og Landsmót 50+ árið 2012 sem er nýtt mót en það verður haldið í fyrsta sinn í sumar.

Fyrir einhvern misskilning var Hrefna Gerður Björnsdóttir endurkjörinn formaður UMSS á þinginu en hún hafði ekki gefið kost á sér til áframhaldandi setu á formannsstóli og tekur því ekki sæti í nýrri stjórn. Að sögn Hrefnu Gerðar er hún að setjast á skólabekk næsta haust og hefur því ekki tíma til að sinna starfinu. Verið er að leita að formannsefni UMSS.

Ný í stjórn komu þau Elisabeth Jansen og Þröstur Erlingsson í stað Sigmundar Jóhannessonar og Sigurgeirs Þorsteinssonar. Sigurjón Leifsson og Hjalti Þórðarson sitja áfram.

Fleiri fréttir