Áskorun um samstarf í umhverfismálum í útbænum og á Eyrinni

Sigfúst Ingi Sigfússon tók við áskoruninni fyrir hönd sveitarstjórnar. Frá vinstri: Róbert Óttarsson, Magnús Svavarsson, Sigfús Ingi og sr. Sigríður Gunnarsdóttir. MYND: ÓAB
Sigfúst Ingi Sigfússon tók við áskoruninni fyrir hönd sveitarstjórnar. Frá vinstri: Róbert Óttarsson, Magnús Svavarsson, Sigfús Ingi og sr. Sigríður Gunnarsdóttir. MYND: ÓAB

Í gær mættu fulltrúar fyrirtækja, stofnana og verslana, sem eru með starfsemi á Eyrinni og í útbænum á Sauðárkróki, á fund sveitarstjórnar Svf. Skagafjarðar og afhentu áskorun um átaksverkvefni í umhverfismálum. Óskað var eftir viðræðum við sveitarfélagið um umhverfisátak á atvinnusvæðinu og í útbænum.

Ýmsir hafa haft orð á því í gegnum tíðina að útbærinn og Eyrin mættu við andlitslyftingu og nú í sumar tók Fisk Seafood rækilega til í sínum ranni og Steinull er komin af stað í tiltekt. Í kjölfarið kom upp sú hugmynd að fyrirtæki og aðrir aðilar á svæðinu tækju sig saman og gerðu skurk í umhverfismálum á svæðinu og fengju sveitarfélagið í lið með sér.

Á fund sveitarstjórnar voru mætt sr. Sigríður Gunnarsdóttir frá Sauðárkrókskirkju, Róbert Óttarsson frá Sauðárkróksbakaríi og Magnús Svavarsson frá Vörumiðlun. Fram kom í máli Magnúsar að það hefði verið sama við hvern var talað þegar undirtektir voru kannaðar, allir voru jákvæðir og skrifuðu undir áskorunina. 

Í áskoruninni segir: „Það er sameiginlegt hagsmunamál allra að hafa umhirðu og umgengni til fyrirmyndar. Ef fyrirtækin og sveitarfélagið leggjast á eitt í þeim efnum er fullvíst að við náum góðum árangri.“ Lagt er til að myndaður verði framkvæmdahópur sem samanstendur af fulltrúum úr hópi fyrirtækjanna og fulltrúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar. „Ekki er óraunhæft að ætla tvö ár í slíkt átaksverkefni,“ segir síðan í lok áskorunarinnar.

Þeir aðilar sem standa að áskoruninni eru: Vörumiðlun, Fisk Seafood, Kaupfélag Skagfirðinga, Steinull, Steypustöð Skagafjarðar, Ísfell, Trésmiðjan Ýr, Spíra (Hótel Tindastóll), Sauðárkróksbakarí, Dögun, Puffin & Friends, Drangeyjarferðir, Verzlun Haraldar Júlíussonar, 1238: Baráttan um Ísland, Stoð verkfræðistofa, K-Tak, Grand-Inn Bar and Bed, Puffin Palace, Blóma- og gjafabúðin, Rauði krossinn í Skagafirði, Arion banki, Hard Wok Café, Hársnyrtistofan Capello, Eftirlæti/Drangey gistiheimili, Sauðárkrókskirkja, Gamla Pósthúsið, Landsbankinn, Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, Lögreglan á Norðurlandi vestra, Sjóvá, Hja Ernu hársnyrtistofa og Handtak ehf. Vera má að einhverja áhugasama vanti á listann sem ekki hefur náðst í af einum eða öðrum orsökum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir