Átta ný störf verða til á Sauðárkróki í átaki á sviði brunamála

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti breytingar sem fyrirhugaðar eru hjá HMS. Mynd: PF.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti breytingar sem fyrirhugaðar eru hjá HMS. Mynd: PF.

Í dag var haldinn kynningarfundur í höfuðstöðvum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) við Ártorg 1 á Sauðárkróki þar sem kynntar voru fyrirhugaðar breytingar á bruna- og eiturefnavörnum á Íslandi. Frá og með deginum í dag munu bætast við um átta ný stöðugildi á sviðið brunaeftirlits og brunavarna hjá HMS á Sauðárkróki.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti breytingar sem fyrirhugaðar eru, bæði á brunaeftirliti og störfum því tengdu, sem og þörfinni fyrir auknar fjárveitingar á mörgum sviðum brunavarna. Bæði til að styðja einstök slökkvilið og til að bæta sérhæfðan viðbúnað við mengunarslysum, stórbrunum og öðrum alvarlegum atvikum. 

Davíð Snorrason, forstöðumaður brunamála hjá HMS, fór yfir stefnu og framtíðarsýn HMS. Mynd: PF.Þá fór Davíð Snorrason, forstöðumaður brunamála hjá HMS, yfir stefnu og framtíðarsýn HMS í málaflokknum og heyra má á myndbandi frá fundinum, eins og bent er á í lok fréttarinnar.

„Þessi nýja skýrsla starfshóps HMS, sem skipaður var sérstaklega til að fara yfir þetta verkefni, brýnir okkur til aðgerða en þar kemur fram að þótt staða okkar sé góð í samanburði við nágrannalönd okkar þá hafa tjón verið að aukast hér á landi á síðustu árum, og við sjáum nýjustu fréttir úr Hrísey frá í morgun. Það er eitthvað sem við ætlum ekki að sætta okkur við. Brunamálin eru gríðarleg hagsmunamál eins og við erum reglulega minnt á. Líkamstjón, svo ekki sé talað um manntjón, er hræðilegt gjald sem við greiðum fyrir skort á fræðslu, skort á brunaeftirliti og brunavörnum almennt. Við getum ekki komið í veg fyrir allt brunatjón en við getum fækkað tilfellum og stuðlað að því að þau verði ekki of dýru verði keypt fyrir samfélagið allt. Við viljum, og eigum, að stórefla brunavarnir. Einn liður í því er að fjölga þeim sem að sinna eftirliti með að lögum og reglum sé framfylgt á öllum stigum, allt frá byggingum mannvirkja til þjálfunar slökkviliða, rannsókna á orsökum og fræðslu til almennings. Það hyggjumst við gera með eflingu brunavarna sem heyra undir hina nýju og öflugu stofnun sem við erum í hér í dag í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er með hluta af starfsemi sinni hér á Sauðárkróki en frá og með deginum í dag munu bætast við um átta ný stöðugildi á sviðið brunaeftirlits og brunavarna,“ sagði Ásmundur Einar í ávarpi sínu. Einnig kom fram í máli hans skýr vilji ríkisstjórnarinnar væri að styðja við þær fáu starfsstöðvar sem eru utan höfuðborgarinnar. „Ég hef einsett mér það innan félagsmálaráðuneytisins að þá munu við leggja okkar lóð á vogarskálarnar í því.“

Ásmundur Einar segist vonast til þess að í næstu viku geti HMS auglýst störf í starfsstöð HMS á Sauðárkróki sem lúta bæði að almennum eftirlitsstörfum og stjórnendastöðum. „Það mun þurfa fólk með háskólamenntun, verkfræðimenntun og annað sem þarf til þess að halda utan um þessa nýju starfsstöð og þau verkefni, sem við erum að fara að hefja saman sem samfélag, að hefja átak í brunavörnum á næstu árum,“ sagði Ásmundur.

Streymt var beint frá fundinum og hægt að nálgast myndband HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir