Atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggð
AVS hefur auglýst eftir umsóknum um stryki þar sem lögð er áhersla á verkefni sem geta skapað ný störf og verðmæti í sjávarbyggðum landsins. Lögð er áhersla á styttri verkefni sem tengjast t.d. ferðaþjónustu, framboði á sjávarfangi, nýjum vörum eða þjónustu.
Mikilvægt er að leggja fram vel rökstuddar og arðvænlegar hugmyndir að verkefnum sem geta aukið fjölbreytni og eflt atvinnu og verðmætasköpun.
Lykilhugtök í þessum verkefnaflokki AVS eru m.a. matarferðamennska, hönnun, nýtt hráefni, sjálfbærni, uppruni, ferðaþjónusta, vöruþróun, fullvinnsla, vörur í smásölu eða á borð neytenda, nýjar tegundir, smáframleiðsla o.m.fl.
Hámarkstími verkefna er 12 mánuðir og skal skila afrakstursskýrslu til sjóðsins við lok verkefnisins.
Hámarksupphæð styrkja er 3 m.kr. og er miðað við að hlutfall styrks af heildarkostnaði verkefnisins verði ekki hærra en 50%.
Sérstakur faghópur mun fara yfir þennan nýja flokk umsókna hjá AVS.
Að öllu öðru leyti þurfa umsækjendur að fylgja leiðbeiningum AVS sjóðsins
Umsóknafrestur er 1.febrúar 2011 og skal skila umsóknum með rafrænum hætti á netfangið avs@avs.is fyrir kl 17:00 þann dag en einnig skal senda undirritað eintak á póstfangið:
AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi; pósthólf 1188; 121 Reykjavík