Auglýst eftir umsóknum í Vaxtarsamning
Vaxtarsamningur Norðurlands vestra óskar eftir umsóknum um styrki og rennur umsóknarfrestur út á miðnætti föstudaginn 28. nóvember næstkomandi. Verkefnin sem styrkt verða þurfa að fela í sér eflingu starfsemi viðkomandi aðila og vera til þess fallin að fjölga störfum á Norðurlandi vestra og/eða auka þekkingu innan svæðisins.
Sækja skal um með rafrænum hætti á eyðublöðum sem fást á vefsíðunni: http://www.ssnv.is. Á vefsíðunni liggja frammi úthlutunarreglur og nánari upplýsingar. Einnig er velkomið að hafa samband með vefpósti á netfangið solveig@ssnv.is eða hringja í Sólveigu Olgu í síma 455 6015.
Áherslur Vaxtarsamnings Norðurlands vestra 2014 lúta einkum að uppbyggingu samstarfs og framgangi rannsókna og vöruþróunar á eftirfarandi sviðum:
- Ferðaþjónustu og menningartengdum verkefnum.
- Auðlindalíftækni og uppbyggingu þekkingarsetra.
- Matvælum
- Sameiginlegum verkefnum sem unnin eru með öðrum vaxtarsamningum í landinu og/eða verkefnum innan þeirra.
Að auki er horft sérstaklega til verkefna sem:
- Vel eru til þess fallin að stuðla að fjölbreyttari atvinnutækifærum fyrir konur og ungt fólk á svæðinu.
- Stuðla að nýtingu auðlinda svæðisins til atvinnusköpunar á Norðurlandi vestra.
- Stuðla að virðisaukningu á sviði matvælaframleiðslu.
Verkefnin sem styrkt verða þurfa að fela í sér eflingu starfsemi viðkomandi aðila og vera til þess fallin að fjölga störfum á Norðurlandi vestra og/eða auka þekkingu innan svæðisins.
Verkefnin skulu unnin í samstarfi þriggja eða fleiri aðila. Skilgreina skal hlutverk og framlag hvers samstarfsaðila. Markmið, framtíðarsýn, framvinda og árangursmat verkefnanna skal vera vel skilgreint. Reikningshald vegna verkefnisins þarf að vera aðskilið öðrum rekstri umsækjenda. Stuðningur við verkefnið getur verið allt að 50% af áætluðum heildarkostnaði þess. Gerður er sérstakur verksamningur um framkvæmd verkefna sem hljóta stuðning, þar er nánar kveðið á um framvindu, greiðslur og tímasetningar. Ekki er heimilt að veita styrki til fjárfestinga í fyrirtækjum eða til reksturs fyrirtækja eða opinberra stofnana, auk þess sem stofnkostnaður er ekki styrkhæfur.
Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér vel úthlutunarreglur og önnur gögn varðandi samninginn.
Fréttatilkynning