Bætist í hóp hundaheimsóknavina á Norðurlandi

Um síðustu helgi var haldið námskeið í húsnæði  Akureyrardeildar Rauða krossins fyrir þá heimsóknavini sem vilja heimsækja með hunda. Þetta var annað námskeið þessa eðlis sem haldið hefur verið á Norðurlandi.

Þátttakendur komu frá þremur deildum á svæðinu þ.e. Akureyrar-, Skagafjarðar- og Húsavíkurdeild og voru fulltrúar frá síðastnefndu deildinni að sækja svona námskeið í fyrsta sinni. Tveir hundar úr Skagafirðinum sóttu námskeiðið sem gefur þeim grænt ljós á heimsóknir og eru þeir þá orðnir þrír í Skagafirði.

Gunnhildur Jakobsdóttir og Brynja Tomer fluttu erindi um hjálparhunda fyrir hundaeigendurna en að því búnu flutti námskeiðsfólk sig yfir í dvalarheimilið Hlíð þar sem fram fór úttekt á hundunum.

Allir átta hundarnir hlutu náð fyrir augum leiðbeinenda með mismunandi áherslum á hvers konar heimsóknir hentuðu hverjum og einum

Samkvæmt Rauða krossinum hefur það færst í vöxt að heimsóknavinir með hunda fari í heimsóknir á dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra, í athvarf fyrir geðfatlaða, á sambýli, í fangelsi og inná heimili. Tíðni heimsókna er mismunandi en í flestum tilvikum er miðað við eina klukkustund í senn, einu sinni í viku og er þeim sem hafa áhuga á að fá hundavin í heimsókn er bent á að snúa sér til viðkomandi deildar Rauða kross Íslands.

Fleiri fréttir