Bakkaflöt íhugar málsókn – Fréttatilkynning

Á sama tíma og aðstandendur Bátafjörs Bakkaflatar gleðjast þess að Neytendastofa úrskurði sér í hag í máli sínu gegn samkeppnisaðila um notkun nafns Bakkaflatar í kynningastarfi, sárnar okkur að misnotkun sem þessi sé möguleg á markaðnum. Það er að samkeppnisaðila sé gert kleyft að nota nafn okkar í leitarskilyrðum í veflægri símaskrá ja.is, af því leiddi að ef slegið er inn orðið Bakkaflöt á ja.is birtist nafn samkeppnisaðila efst.

Misnotkun þessi hefur staðið yfir síðan í Maí 2010 og höfum við fengið marga viðskiptavini, jafnvel heilu hópana, sem stóðu í þeirri trú að vera að fara í ferð hjá okkur á Bakkaflöt, en voru þá búnir að borga ferðina hjá samkeppnisaðila okkar. Við fundum fyrir fækkun á ferðum í rafting síðastliðið sumar og einnig það sem af er þessu sumri, þykir okkur því nokkuð ljóst að skaðinn sé greinilegur.

Árið 2004 þá lendum við í svipuðu máli en þáverandi samkeppnisaðili okkar, Ævintýraferðir, notaði orðið "Bátafjör í Skagafirði" í bæklingum sem þeir gáfu út. Nokkrum árum áður byrjuðum við að markaðssetja okkur sem Bátafjör Bakkaflöt og var greinilegt að villa átti fyrir fólki með þessu. Á þessum tíma mátti einnig sjá áhrif á sölu og fannst okkur þá einnig okkar mikla vinna við að vekja athygli á starfsemi okkar fara að hluta til í að styrkja stöðu samkeppnisaðila. Í því máli var einnig kvartað til Samkepnisstofnunar og þurftu Ævintýraferðir að taka alla bæklinga úr umferð.

Ferðaþjónustan Bakkaflöt hefur starfað frá 1987 í Lýtingsstaðarhreppi í Skagafirði. Frá árinu 1994 hefur verið gert út river rafting frá Bakkaflöt. Við höfum náð að þróa öryggisbúnað og mannskap eins og best verður á kosið. Boðið er upp á fjölda skemmtilegra ferða og höfum við fjölbreytt vöruúrval á þessum markaði, svo sem gistingu, tjaldstæði, wipeout garðinn sem eini sinnar tegundar á landinu.

Lítum við á úrskurð Neytendastofu sem stóran áfanga í málinu sem þegar hefur verið kostnaðarsamt og tekið mikinn og dýrmætan tíma frá aðstandendum Bátafjörs Bakkaflatar sé ekki litið til þess tekjutaps sem af þessu máli hefur hlotist. Þar sem við á Bakkaflöt höfum starfað í 24 ár þykir okkur miður að þurfa oft á tíðum að verja nafnið okkar fyrir því að samkeppnisaðilinn noti það í sinni markaðssetningu rétt eins og Arctic Rafting hefur nú gert í rúmt ár. Nú á næstu dögum munum við fara yfir úrskurðinn með lögfræðingi okkar og kanna næstu skref en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort haldið verður áfram með málið í skaðabótamál.

Bakkaflöt ferðaþjónusta

Fleiri fréttir