Bálið kynnt í baráttunni við riðuna
Það var engu líkara en Reykjarhóllin stæði í ljósum logum þegar blaðamaður Feykis átti leið um Langholtið og Varmahlíð föstudaginn 28. ágúst, slíkt var reykjarkófið sem virtist stíga upp af svæðinu. Þegar nær dró varð þó ljóst að engin hætta stafaði að íbúum Varmahlíðar né sumarbústaðafólki því mökkurinn sté upp frá Álftagerði, nokkru framar í sveitinni.
Að sögn Gísla Péturssonar, bónda í Álftagerði, ákvað hann að nota hagstæða vindátt, hæga vestanátt, til að brenna rest af innvolsi fjárhúsanna, sem er ein af þeim aðferðum sem notuð er í baráttunni við riðuveikina, en sú sótt kom upp á bænum í janúar á síðasta ári. Allt timbur í gólfi, veggjum og milligerðum hefur orðið eldinum að bráð, skipt um jarðveg við útihús og annað sótthreinsað. Á stór Varmahlíðarsvæðinu hefur riðan skotið sér niður á yfir tíu bæjum sl. 20 árum og hefur Álftagerði tvisvar áður orðið fyrir barðinu á óværunni áður, 2008 og þar áður 20 árum fyrr.
Gísli er ekki alveg af baki dottinn með fjárbúskapinn því hann stefnir á að fá sér kindur á ný. „Það er ekki fyrr en næsta haust sem það má. Ég verð ekki nema sjötugur,“ segir hann og hlær. „En maður veit svo sem ekkert hvernig málin standa eftir ár.“
Hann segir að annað hvort hafi þurft að setja botn aftur í fjárhúsin eða jafna þau ofan í sökkullinn. „Þetta verður annars bara draugahús og grotnar niður ef ekkert er hugsað um þetta. Svo er ég búinn að byggja hérna og langar að eiga nokkrar kindur. Það verður aldrei farið í það að fylla húsin aftur. Þetta verður smá sparifé eins og stendur,“ segir Gísli góðlátlega.
Vill kaupa fé af nágrannabæ
Í reglum um kaup á líflömbum kemur fram að þau verði að koma af svokölluðu hreinum svæðum en Gísli vill reyna á hvort ekki mætti sækja líflömb á nágrannabæinn Ytra-Vallholti þar sem aldrei hefur greinst riða þrátt fyrir nálægð við riðubæi. Gísli segir að þar á bæ hafi einungis verið notaðir hreinir verndandi hrútar og féð virðist því ónæmt fyrir veikinni en þrír flokkar eru skilgreindir í þessum málum í arfgerð, áhættuflokkur, hlutlaus og verndandi.
Ég er núna að berjast í því að fá að kaupa af þeim í Vallholti, ekki kaupa af þessum svokölluðu hreinu svæðum. Maður er bara að kaupa áhættukindur þaðan og ég segi að þær megi ekki koma inn á mína landareign. Mér finnst að maður sé að sýna þessu lit með því að vera með allt verndandi, ef að það virkar. En reglur eru reglur og ekki víst að það gangi í gegn, það þarf víst einhverjar lagabreytingar. En það er verið að vinna í þessu og verður bara að koma í ljós.“
