Banni á bensínsölu B. Har frestað

Nú er bara að koma dælunni í gang og brosa til vors. Mynd: PF
Nú er bara að koma dælunni í gang og brosa til vors. Mynd: PF

Á fundi Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra sem haldinn var í gær var ákveðið að aflétta takmörkunum tímabundið á sölu eldsneytis á núverandi sölustað Olís á Sauðárkróki þegar fullljóst verður að aðstaða verði endurbætt. Bjarni Har getur þá látið dæluna ganga. Að sögn Sigurjóns Þórðarsonar frestast bannið fram á vor og fellur úr gildi ef farið verður í lagfæringar á núverandi stað.

Við sögðum frá því í síðasta Feyki  að Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra hefði um síðustu áramót afturkallaði leyfi Verslunar Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki til að selja olíu eftir tæplega 90 ára farsælt starf fyrst sem umboðsaðili BP og síðar Olíuverzlunar Íslands, nú Olís. 

Á fundi HNV í gær var m.a. farið yfir málefni bensínstöðvarinnar og ný gögn um uppbyggingu eldsneytisafgreiðslu við Borgarflöt 31, skoðuð. Getur nú Bjarni Har haldið áfram eldsneytissölunni fram á vorið í það minnsta.

Í október 2016 óskaði Olíuverslun Íslands eftir leyfi fyrir afgreiðsluplani, eldsneytisdælu og olíuskilju vegna olíuafgreiðslu í Aðalgötu 22 þar sem athafnasvæði Verslunar Haraldar Júlíussonar er. Umbeðin mannvirki voru fyrirhugaðar utan lóðarinnar Aðalgata 22 og hafnaði Skipulags- og byggingarnefnd erindinu þar sem uppbygging bensínstöðvar á þessum stað samræmist ekki skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir