Bar tveimur hrútlömbum á bóndadag

Það telst til tíðinda þegar lömb fæðast í byrjun þorra enda hefst sauðburður yfirleitt ekki fyrr en í maí. Mynd: Þórdís Halldórsdóttir.
Það telst til tíðinda þegar lömb fæðast í byrjun þorra enda hefst sauðburður yfirleitt ekki fyrr en í maí. Mynd: Þórdís Halldórsdóttir.

Það var á bóndadaginn, 19. janúar þegar ærnar á Ytri-Hofdölum í Skagafirði fengu kvöldgjöfina sína þegar bændur tóku eftir því að það stendur höfuð út í fæðingarveginum hjá einni ánni. Héldu þeir fyrst að hún væri að láta þar sem enginn átti von á sauðburði á þessum árstíma en áttuðu sig fljótt og aðstoðuðu hana við burðinn. Í heiminn kom stórt og fullburða lamb, svarbotnóttur hrútur sem ekki hefði komist út án aðstoðar. Stuttu síðar bar ærin öðrum stærðar hrúti og er sá móbotnóttur.

„Pabbi hringir svo í mig, en ég er komin sjálf á steypirinn og á að eiga um mánaðarmótin febrúar mars svo að ég er lítið að brasa i fjárhúsunum eins og er,“ segir Þórdís Halldórsdóttir í samtali við Feyki en hún sagði frá þessum atburði á Facebook síðu sinni. „En ég hélt að hann væri að fíflast í mér þar til að ég heyrði í lambinu í gegnum símann, svo að ég var fljót að koma mér niður í hús og þá var kominn annar stærðar hrútur og sá er móbotnóttur.“

Þórdís segist ekki vita hvaða hrútur tók þátt í þessu en hann hljóti að vera móbotnóttur af litunum á lömbunum af dæma. Hún segir þetta allt of snemmt þó skemmtilegt sé og gaman þegar ærnar koma með svona falleg og stór lömb. „En við munum bara alls ekki eftir burði svona snemma. Það bar ein hjá okkur 20. mars fyrir þremur árum og okkur fannst það alltof snemmt en þetta toppaði það alveg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir