Baráttumál VG að verða að veruleika

Stór þáttur í jafnréttisbaráttu og kvenfrelsi hefur verið aukið fæðingarorlof og jafn réttur kynjanna til þess að vera með barni sínu þennan dýrmæta tíma í lífi foreldris og barns. Samfella í fæðingarorlofi og leikskóla er mikið jafnréttis- og velferðarmál sem vinstri menn hafa barist fyrir lengi.

Á dögunum fór fram fyrsta umræða á Alþingi um breytingu á fæðingarorlofi. Til stendur að lengja fæðingarorlofið fyrst í tíu mánuði á næsta ári og tólf mánuði árið 2021.
Lenging fæðingarorlofsins hefur verið baráttumál Vinstri grænna í mörg ár og það er því virkilega ánægjulegt að nú liggi fyrir stjórnarfrumvarp um málið.
Lenging fæðingarorlofsins er mikilvægt skref til að draga úr launamun kynjanna, enda hafa ýmsar rannsóknir sýnt að launamunur kynjanna eykst við barneignir. Konur taka auk þess lengra fæðingarorlof en karlar að jafnaði. Á hverju ári frá 2015 hafa í kringum 700 feður ekki tekið neitt fæðingarorlof.

Bætum kjör barnafjölskyldna
Það er mikilvægt fyrir börn að tengjast báðum foreldrum sínum í frumbernsku og þetta á að koma til móts við með breytingum sem nú liggja fyrir Alþingi. Þannig er sameiginlegur tími sem foreldrar geta deilt sín á milli styttur, en á móti fær hvert foreldri lengri tíma. Þannig lengist tími hvers foreldris í fjóra mánuði á næsta ári og fimm mánuði árið 2021. Sameiginlegur tími foreldra væri þá tveir mánuðir á hverju ári.

Að brúa bilið milli loka fæðingarorlofs og leikskóla er líka eitt af því sem mestu máli skiptir til að bæta kjör ungra barnafjölskyldna og draga úr fátækt barna. Þannig má draga úr því að foreldrar þurfi að taka sér launalaust leyfi eða hætta í vinnu til að brúa bilið. Það getur haft varanleg áhrif á starfsferil foreldrisins sem það gerir og í flestum tilfellum er það móðir barnsins, það er að segja í þeim tilfellum þegar um er að ræða par af gagnstæðu kyni. Það gefur auga leið að þetta hefur frekar áhrif á fólk sem er í viðkvæmri stöðu á vinnumarkaði og er líklegar til að lenda í gildru fátæktar til að byrja með.

Ein leið til að brúa þetta bil er einmitt að lengja fæðingarorlofið. Hér eru því slegnar nokkrar flugur í einu höggi. Öll börn fá meiri tíma með foreldrum sínum á þessum fyrstu mánuðum ævinnar, umönnunarbilið er brúað og staða foreldra sem nýta sér fullt fæðingarorlof er jöfnuð.

Lilja Rafney Magnúsdóttir
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir