Baráttusigur Stólanna gegn sprækum Fjölnismönnum

Lið Tindastóls fékk Fjölni úr Grafarvoginum í heimsókn í Síkið í kvöld í Iceland Express deildinni í körfuknattleik. Fjölnismenn voru með yfirhöndina mest allan fyrri hálfleik en staðan var engu að síður jöfn 15-15 eftir fyrsta leikhluta og sömuleiðis í hálfleik, 34-34. Stólarnir náðu síðan frumkvæðinu í síðari hálfleik og í fjórða leikhluta náðu heimamenn að þétta vörnina og náðu 12 stiga forystu þegar best lét. Lokatölur 91-81.

Tindastólsmenn virkuðu frekar þungir framan af leik og máttu hafa sig alla við til að halda í við spræka pilta í liði Fjölnis, sérstaklega voru þeir Tómas Heiðar og Ægir Þór magnaðir. Stólunum gekk frekar illa að koma boltanum í körfuna en góð barátta skilaði slöttungi af sóknarfráköstum. Rikki og Fain voru ekki að finna sig í fyrri hálfleik en þeir voru miklum mun frískari í þeim síðari og þá fóru nokkrir þristar rétta leið. Það gladdi stuðningsmenn Stólanna að endurheimta Svabba Birgis í hópinn og hann hafði litlu gleymt og fann körfuna nokkrum sinnum þó hann hefði haft hægt um sig fyrir utan 3ja stiga línuna - enda skot þaðan nánast bara lögreglumál hjá Stólunum í vetur.

Úrslitin réðust síðan í upphafi fjórða leikhluta en þá náðu Stólarnir góðum kafla, hleyptu reyndar gestunum aftur inn í leikinn en það var engin miskunn hjá Magnúsi í kvöld og Stólarnir kröfsuðu sig aftur í 10-12 stiga forskot og tíminn reyndist of naumur fyrir Fjölnismenn til að bregðast við og Tindastólsmenn sigldu öruggum sigri í höfn.

Kitanovic og Helgi Rafn börðust eins og ljón í leiknum, Cunningham var traustur og sem fyrr segir átti Svabbi ágæta innkomu. Rikki og Fain komust vel inn í leikinn í síðari hálfleik og eitt sett af troðslum frá Fain gladdi áhorfendur. Helgi Freyr var fjarri góðu gamni í kvöld en það er ljóst að tilkoma Svabba eykur breiddina hjá Stólunum og liðið til alls líklegt en það hefur sigrað í fjórum af síðustu fimm leikjum sínum, þar af þremur í deildinni.

Næstu leikir Tindastóls eru báðir í Keflavík, fyrst í Poweradebikarnum 5. desember og síðan í Iceland Express deildinni 9. desember. Síðasti leikur liðsins fyrir jól er síðan hér heima gegn Njarðvíkingum 16. desember.

Fleiri fréttir