Barna- og unglingakórar Tónadans og Akureyrarkirkju í Miðgarði
Á morgun, laugardaginn 7. mars, halda barna- og unglingakórar Tónadans og Akureyrarkirkju tónleika í Menningarhúsinu Miðgarði. Tónleikarnir, sem eru öllum opnir, hefjast klukkan 14:30 og er aðgangur ókeypis en tekið verður við frjálsum framlögum.
Kórar Tónadans eru tveir, annars vegar Stjörnukór sem í eru krakkar á aldrinum 5-8 ára og hins vegar eldri kórinn en í honum eru nemendur á aldrinum 9- 13 ára. Kórarnir hafa áður sungið saman en að þessu sinni bætist kór Akureyrarkirkju í hópinn. Þá mun Bjöllukór Tónadans taka þátt í nokkrum lögum. Alls koma um 35 - 40 börn og unglingar fram á tónleikunum. Kórarnir munu ýmist syngja saman eða sitt í hvoru lagi og á efnisskránni eru skemmtileg lög úr söngleikjum, kvikmyndum og úr uppáhalds Disneymyndunum. Má búast við hinni bestu skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Kristín Halla Bergsdóttir hjá Tónadansi segir að fyrirhugað sé áframhaldandi samstarf milli kóranna en eldri kór Tónadans mun taka þátt í verkefninu Hver vill hugga krílið, ásamt Unglingakór Akureyrarkirkju en það er verkefni fyrir kór, hljómsveit og sögumann og verður flutt í Hofi 19. apríl og í Hörpu 25 apríl.
Stjórnendur kóranna eru Kristín Halla Bergsdóttir og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og undirleikari í nokkrum laganna er Thomas R. Higgersson.