Beint flug lykilatriði í ákvörðun um ferð um Norðurland
Þegar tekin var ákvörðun um að fljúga beint til Akureyrar með easyJet, Edelweiss eða ferðaskrifstofunum Voigt Travel og Kontiki skipti það sköpum að flogið var beint á áfangastaðinn. Stærsti áhrifaþátturinn í ákvörðuninni var náttúra landsins eða tiltekin náttúrufyrirbæri, en strax á eftir er möguleikinn á beinu flugi.
Aðrir ráðandi þættir í ákvörðuninni um að fara í ferðalag um Norðurland voru áhugi á norðurslóðum og kaldara loftslagi, öryggi áfangastaðarins, Íslendingar og þeirra menning og meðmæli frá vinum eða öðrum. Góð verð á flugi höfðu einnig meiri áhrif frá Manchester en London, en hafa ber í huga að þetta var fyrsti veturinn þar sem boðið er upp á flug þaðan til Akureyrar.
Helmingurinn frá Bretlandi hafði áður komið til Íslands
Í samræmi við þær tölur sem hafa birst frá Ferðamálastofu á undanförnum árum eru Bretar stærsti hluti þeirra sem heimsækir Ísland yfir vetrartímann. Um 50% þeirra sem flugu frá Bretlandi höfðu áður komið til Íslands, og þar af höfðu í kringum 70% komið að vetri til.
/Fréttatilkynning frá Markaðsstofu Norðurlands