Beint streymi úr æðarvarpi frá Hrauni á Skaga

Skjáskot frá æðarvarpinu á Skaga.
Skjáskot frá æðarvarpinu á Skaga.

Það er eitt og annað sem vekur áhuga fólks fyrir framan skjáinn. Á dögunum var sagt frá því a Svíar fylgjast af áhuga með hreindýrum vaða ár á leið sinni milli svæða í Svíaríki. Gísli Einars var frumkvöðull í þessu svokallaða Slow TV og leyfði þjóðinni að fylgjast með sauðburði hjá Atla og Klöru á Syðri-Hofdölum fyrir fáeinum árum. Nú geta áhugasamir fylgst með beinu streymi úr æðarvarpi á Hrauni á Skaga.

Á Facebook-síðunni Hraun á Skaga Eiderdown er sem sagt hægt að fylgjast með æðarvarpinu út við ysta haf en það er Herdís Rögnvaldsdóttir sem á heiðurinn að framtakinu.

Í texta á síðunni segir að æðarfuglinn hafi um aldir verið einn mesti nytjafugl þjóðarinnar vegna dúnsins sem losnar af bringu kollunnar á varptímanum og hún fóðrar hreiðrið með. „Fuglinn heldur sig á sjónum árið um kring, nema núna í maí og júní þegar hann sest upp í varplöndin. ...Myndavélin færist til á nokkurra mínútna fresti og myndefnið er breytilegt. Sjá má að margar kollur verpa í hreiðurskjólum sem verja gegn norðanáttinni. Einnig má sjá litrík flögg sem oft er að finna í æðarvörpum og talin laða fugla að.“

Næstu vikurnar verður hægt að fylgjast með beinu streymi úr varpinu á Hrauni. Smellið hér til að fylgjast með skemmtilegri og sérstakri íslenskri búgrein.

Fleiri fréttir