Benný Sif segir frá á Héraðsbókasafni Skagfirðinga
Rithöfundurinn, Benný Sif Ísleifsdóttir, heimsækir Héraðsbókasafnið á Króknum fimmtudagskvöldið 9. október kl. 20 og segir frá draumum og þrám sögupersóna sinna og les brot úr bókum sínum, sögulegum skáldsögum sem allar gerast úti á landi. Skáldsögur Bennýjar eru örlagasögur fólks úr íslenskum veruleika, höfundur tvinnar haganlega saman sorgir og sigra sögupersónanna og lesandinn getur vart annað en hrifist með. Þess má geta að Benný Sif hefur einnig skrifað þrjár barnabækur.
Við heyrum af ólíkindatólinu, skipstjórafrúnni Grímu, úr samnefndri bók, af komplexaða líffræðinemanum Valborgu úr sögunni Djúpið, af baráttukonunni Gratíönu Hansdóttur úr tvíleiknum Hansdætur og Gratíana og af miðaldra hárgreiðslukonunni Rósu úr bókinni Speglahúsið sem er orðin þreytt á að snúast í kringum uppkomin börn sín.
Benný Sif Ísleifsdóttir er með bæði BA- og MA-próf í þjóðfræði og diplóma í hagnýtri íslensku frá Háskóla Íslands. Hún er fimm barna móðir, fædd og uppalin á Eskifirði en búsett í Kópavogi. Benný kom nokkuð geyst fram á íslenskt bókmenntasvið og hefur á örfáum árum markað sér spor þar.
Benný hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2018 fyrir handritið að skáldsögunni Grímu sem kom út sama ár. Gríma vakti nokkra athygli, spurðist vel út meðal lesenda og hlaut Íslensku hljóðbókaverðlaunin, Storytel Awards. Skáldsagan Hansdætur kom út árið 2020 og hlaut strax mikið lof gagnrýnenda og var tilnefnd til Evrópsku bókmenntaverðlaunanna. Framhald Hansdætra, Gratíana, kom út árið 2022 og hlaut fádæma góðar viðtökur lesenda. Árið 2021 kom skáldsaga hennar Djúpið út og á síðasta ári Speglahúsið.