Bikar Stólastúlkna loks á loft á morgun

Það er gott að fagna! MYND: ÓAB
Það er gott að fagna! MYND: ÓAB

Það verða spilaðir tveir fótboltaleikir á gervigrasinu á Króknum nú um helgina. Það verður grannaslagur á sunnudaginn þegar strákarnir taka á móti liði KF úr Fjallabyggð en á morgun, laugardaginn 6. mars, spila Stólastúlkur við lið FH í Lengjubikarnum og að leik loknum mun liðið loks hefja á loft bikarinn fyrir sigur í Lengjudeildinni síðarliðið sumar.

Því miður náðist ekki að klára mótið í fyrra vegna kipps í kórónufaraldrinum og þótt leyfi hafi fengist frá KSÍ til að leika síðasta leikinn hér heima gegn liði Völsungs þá treystu Húsvíkingar sér ekki til að spila – voru komnir í frí. Því er það loks nú, tæpu hálfu ári síðar, sem Stólastúlkum gefst færi á að lyfta bikarnum og fá verðlaunapening fyrir frábæra frammistöðu síðasta sumars.

Leikurinn hefst kl. 15:00 og er þá væntanlega búinn um stundarfjórðungi fyrir fimm. Athöfnin hefst á gervigrasvellinum um 15 mínútum eftir að leik lýkur, upp úr klukkan fimm, og mun fulltrúi KSÍ afhenda verðlaunin. Að því loknu verður skellt í smá flugeldasýningu. Veðurstofan gerir ráð fyrir léttri sunnan andvara og fjögurrra stiga hita þannig að það ætti ekki að væsa um mannskapinn.

Stuðningsmenn eru hvattir til að mæta á völlinn og fagna með liðinu. Að sjálfsögðu má enginn gleyma sér því það þarf að muna eftir sóttvarnarreglunum góðu, grímum og alles. Nánari upplýsingar má kannski finna á Facebook-síðu stuðningsmanna Tindastóls þegar nær dregur.

Já og leikurinn hjá strákunum byrjar kl. 14:00 á sunnudaginn :o)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir