Bílþjófnaður á Sauðárkróki upplýstur

Lögreglan á Sauðárkróki hefur upplýst þjófnað á bifreið sem stolið var að kvöldi sl. föstudags. Í ljós hefur komið að gleymst hafði að taka kveikjulásslykilinn úr bifreiðinni þegar henni var lagt og reyndist bifreiðin því aðgengileg þeim sem stálu henni.  Bifreiðinni var síðan ekið til Reykjavíkur og daginn eftir til baka. 

Þegar norður var komið földu þjófarnir  síðan bifreiðina milli gáma við Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki en til stóð  að fara aftur á henni suður á sunnudeginum.  Þær áætlanir breyttust þegar bifreiðin fannst.

Fljótlega eftir að málið kom upp beindist grunur að ákveðnum aðilum sem síðan hafa við yfirheyrslu játað að hafa stolið bifreiðinni. Bifreiðin og verðmæti sem í henni voru hafa verið endurheimt og afhent eiganda. Bifreiðin reyndist óskemmd.

Annars hefur verið fremur rólegt hjá lögreglu samkvæmt vef Lögreglunnar á Sauðárkróki, skemmtannahald og jólahlaðborð hafa farið vel fram og fólk almennt skemmt sér á ábyrgan hátt.  

Lögreglan aðstoðaði við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings í lok nóvember eins og venjan er við opinberar kosningar.

Það er ekki of oft minnst á nauðsyn þess að nota endurskinsmerki nú í svartasta skammdeginu.  Þessi litlu þarfaþing má nálgast ókeypis  hjá ýmsum aðilum, svo sem bönkum, tryggingafélögum og að sjálfsögðu hjá lögreglu.  Það er á ábyrgð foreldra að sjá börnum sínum fyrir þessum öryggistækjum og sjá til þess að þau séu til staðar.

Fleiri fréttir