Bjarni Jónasson knapi ársins hjá Skagfirðingi

Knapi ársins hjá Skagfirðingi, Bjarni Jónasson, tekur við viðurkenningum úr hendi Elvars Einarssonar, formanns félagsins. Mynd: Skagfirðingur.is.
Knapi ársins hjá Skagfirðingi, Bjarni Jónasson, tekur við viðurkenningum úr hendi Elvars Einarssonar, formanns félagsins. Mynd: Skagfirðingur.is.

Á dögunum fór fram verðlaunaafhending hjá Hestamannafélaginu Skagfirðingi fyrir árið 2020 en þrátt fyrir að ekki hafi verið mögulegt að halda uppskeruhátíð eins og tíðkast hefur í gegnum árin ákvað stjórn þó að tilnefna og verðlauna allt það hæfileikaríka keppnisfólk sem er í félaginu. Á  heimasíðu félagsins er talinn upp hópur fólks sem tilnefndir voru til hinna ýmsu verðlauna og þeim sjálfboðaliðum sem starfað hafa fyrir félagið þökkuð óeigingjörn störf.

Knapi ársins hjá Hestamannafélaginu Skagfirðingi 2020 er Bjarni Jónasson á Sauðárkróki en hann var tilnefndur til íþróttaknapa, gæðingaknapa og skeiðknapa ársins. Helst má nefna árangur hans á Íþróttamóti Skagfirðings á Hólum í vor þar sem hann og Harpa Sjöfn frá Hvolsvelli sigruðu fimmgang með einkunnina 7,88 og er það hæsta einkunn sem gefin hefur verið í fimmgangsúrslitum á landinu í ár ásamt því að vera með góðan árangur í tölti, skeiði og gæðingakeppni á árinu.

Íþróttaknapi ársins er Mette Mannseth en hún sigraði gæðingaskeið á Íþróttamóti Skagfirðings ásamt því að ná góðum árangri á Haustmóti Léttis.

Gæðingaknapi ársins er Skapti Steinbjörnsson en hann hlaut annað sæti í A-flokki á Félagsmóti Skagfirðings og Stórmóti Þjálfa á Lokbrá frá Hafsteinsstöðum.

Skeiðknapi ársins Guðmar Freyr Magnússon.

Knapi ársins í ungmennaflokki er Guðmar Freyr Magnússon en hann sigraði fimmgang, gæðingaskeið og tölt á Íþróttamóti Skagfirðings í vor.

Knapi ársins í áhugamannaflokki er Pétur Grétarsson.

Sjá nánar á Skagfirðingur.is

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir