Björg, Heiðdís Lilja og Ingólfur keppa fyrir Skagafjörð í Útsvari í kvöld
Í kvöld ættu Skagfirðingar að sitja límdir við sjónvarpsskái sína þegar lið Skagafjarðar mætir liði Vestmannaeyja í Útsvari á RÚV. Óskað var eftir ábendingum um fulltrúa í lið Skagafjarðar á Facebook síðu sveitarfélagsins í lok sumars og samkvæmt frétt á Skagafjörður.is barst fjöldi ábendinga og var því úr vöndu að ráða varðandi valið. Það eru þau Björg Baldursdóttir, Heiðdís Lilja Magnúsdóttir og Ingólfur Valsson sem skipa lið Skagafjarðar í ár.
Björg er ættuð frá Vigri í Ísafjarðardjúpi en hefur búið og starfað í Skagafirði í árafjöld og þá lengstum sem kennari við grunnskólann á Hólum. Heiðdís Lilja er Króksari, dóttir Magga Sigurjóns og Böggu heitinnar í Ísold, en hún býr í Garðabæ. Hún er lögfræðingur hjá Fjölmiðlanefnd en hefur víða látið til sín taka og meðal annars starfað sem ritstjóri, fréttakona og skrifað bókina Eldað undir bláhimni. Ingólfur er af Fornósnum, sonur Vals heitins Ingólfssonar og Önnu Pálu Þorsteins, en hann er tölvugúrú.
Umsjónarmenn þáttarins eru Guðrún Dís Emilsdóttir og Sólmundur Hólm og fylgja nýjum þáttastjórnendum nokkuð breyttar áherslur. Til dæmis má nefna þá nýjung að hvort lið um sig fær eina spurningu sem áhorfendur heima geta aðstoðað við að svara með því að nota Twitter aðgang sinn. Við hvetjum alla sem nota Twitter til að vera með tölvuna eða snalltækið við höndina og leggja okkar fólki lið í kvöld.
Þátturinn er sýndur í beinni útsendingu og hefst kl. 20:05. Þeir sem staddir eru á höfuðborgarsvæðinu og vilja vera áhorfendur í sal geta mætt í Efstaleiti kl. 19:30.
Heimild: Skagafjörður.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.