Bókartitlarnir um 8000 talsins
Örn Þórarinsson, 67 ára bóndi á Ökrum í Fljótum, er innfæddur Fljótamaður og hefur búið á Ökrum frá níu ára aldri. Ásamt búskapnum rekur Örn fornbókaverslun sem hann hefur starfrækt frá árinu 2008 og hefur umfang starfseminnar farið vaxandi ár frá ári og selur hann bækur um allt land, bæði til þeirra sem kaupa bók og bók á stangli en þó mest til safnara. Kveikjan að fornbókaversluninni var sú að Örn fór að huga að einhverju til að hafa fyrir stafni á efri árunum og hvað er þá betra en að sameina atvinnu og áhugamál? Örn svaraði spurningum í þættinum Bók-haldið í 7. tbl. Feykis 2017
Hvers konar bækur lestu helst?
Ýmsar bækur sem fjalla um Ísland, einstök landssvæði, jafnvel einstaka jarðir og ekki síst eyðibyggðir. Af einhverjum ástæðum eru Hornstrandir í sérstökum metum hjá mér þó ég hafi aldrei komið þar. Helstu bækur í þessu sambandi eru Jarðabækur Hins íslenska Bókmenntafélags, Sýslu- og sóknarlýsingar sem eru til fyrir flest héruð í landinu, Árbækur Ferðafélags Íslands að ógleymdri Hornstrendingabók Þórleifs Bjarnasonar. Svo finn ég alltaf einhverjar áhugaverðar ævisögur, oft gamlar.
Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?
Ég man ekki eftir neinni sérstakri uppáhaldsbók en með þeim fyrstu var Við Álftavatn eftir Ólaf Jóhann og bækurnar um Salomon svarta og Bjart eftir Hjört Gísla. og svo Ævintýrabækur Enid Blyton og bækurnar um félagana fimm.
Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?
Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson. Það er sérstaklega hugarfar söguhetjunnar samfara þessari ótrúlegu þrautseigju við erfiðar aðstæður sem mér finnst heillandi við þá bók svo er hún líka listavel skrifuð af Gunnari.
Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur/höfundar og hvers vegna?
Ég á engan uppáhaldsrithöfund. Mín aðkoma að bókum síðari ár hefur verið kaup og sala á notuðum bókum og að útvega fólki bækur sem það er að leita eftir, oft bókum sem komu út fyrir nokkrum áratugum. En höfundar eru miseftirsóttir, Guðrún frá Lundi hefur verið í tísku undanfarin ár. Einnig hafa bækur Ásgeirs frá Gottorp; Horfnir góðhestar og Forystufé, verið eftirsóttar. Ævisaga Moniku á Merkigili og Nú brosir nóttin (Guðmundar Einarssonar) eru vinsælar og svo á Halldór Laxness dyggan hóp aðdáenda. En ég spái lítið í erlenda höfunda og þýddar skáldsögur en það er ljóst að menn eins og Knut Hamsun, Ernest Hemingway og William Heinesen eiga aðdáendur hér á landi.
Hvaða bók/bækur er/eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Heiða fjalldalabóndi og Afdalabarn Guðrúnar frá Lundi. Svo 101 vestfirsk þjóðsaga I-VI Gísla Hjartarsonar, þær eru góðar ef maður vill sofna hlæjandi. Gísli var skemmtilega pennafær og hefur fylgst vel með mannlífinu á Vestfjörðum.
Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?
Ég kem að sjálfsöðu stundum í Bókasafnið á Sauðárkróki. Þarf að fara fljótlega því mig langar að fá ævisögu Ladda lánaði. Svo lít ég stundum við í Bókasafni Fjallabyggðar þar sem Hrönn Hafþórs ræður ríkjum.
Áttu þér uppáhaldsbókabúð (hér heima eða erlendis)?
Fyrir fornbóksala eins og mig er bókamarkaður Amtbókasafnsins á Akureyri mín uppáhalds bókaverslun. Þar er hægt að detta ofan á ýmsa gamla og fágæta gimsteina oft í ágætu ástandi.
Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?
Ég held að þetta séu rúmlega 8.000 titlar núna. Þessu fjölgar svona um 4-5 hundruð á ári. Ég hef hemil á fjölguninni því alltaf seljast einhverjir titlar upp og þeir koma kannski ekki inn aftur fyrr en eftir einhver ár. En eins og allir vita er gefið mikið út af bókum á hverju ár en ég held að gæðin séu ansi misjöfn.
Er einhver bók sem hefur sérstakt gildi fyrir þig?
Mér finnst a.m.k. gaman að eiga nokkrar bækur frá gömlu prentstöðunum; Hólum, Leirárgörðum og Viðey. Svo er að sjálfsögðu gaman að eiga bækur eins og Skarðsbók þó aðeins sé um ljósrit að ræða. Bandið á bókum hefur líka talsvert að segja. Bók í fallegu skinnbandi með gyllingu og jafnvel skrautbrúnum á kili er ólíkt skemmtilegri eign en bók í hefðbundnu forlagsbandi eða jafnvel óinnbundin bók.
Hefur þó heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?
Nei
Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Ef ég ætlaði að gefa bók. Það er góð spurning. Það færi væntanlega eftir áhugamáli þess sem ætti að njóta. Áhugamálin á svið bóka eru nánast óþrjótandi. Það eru margir að safna, sumir ákveðnum höfundum, aðrir bókum um ákveðna atburði, t.d. styrjaldarárin. Sumir safna bókum frá gömlu prentstöðunum, aðrir ljóðabókum og enn aðrir ferða- og landlýsinga- bókum. Ég þekki eina ágæta konu sem er búin að versla dálítið við mig á undanförnum árum og ég er ekki í vafa um að ég mundi gleðja hana mest með því að gefa henni gamla markaskrá.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.