Bóndi, býður þú þorra í garð? - Pistill Byggðasafns Skagfirðinga

Öskutrog frá Kálfárdal í Gönguskörðum. Trogið hefur áður verið notað sem mjólkurtrog, til að láta mjólkina setjast. Þá var mjólkin látin standa þar til skán var komin á hana og hægt að skilja að undanrennu og rjóma, með því að láta undanrennuna „renna undan“ rjómaskáninni. Þetta trog var síðast notað til að ausa taði á tún og bera ösku úr eldhúsi. Mynd: BSk-1997:218.
Öskutrog frá Kálfárdal í Gönguskörðum. Trogið hefur áður verið notað sem mjólkurtrog, til að láta mjólkina setjast. Þá var mjólkin látin standa þar til skán var komin á hana og hægt að skilja að undanrennu og rjóma, með því að láta undanrennuna „renna undan“ rjómaskáninni. Þetta trog var síðast notað til að ausa taði á tún og bera ösku úr eldhúsi. Mynd: BSk-1997:218.

Þorrinn er genginn í garð, margir stefna á að fara á þorrablót og því ekki úr vegi að fjalla örstutt um tímabilið. Í forníslensku tímatali var þorri fjórði mánuður vetrar, og hefst hann á föstudegi í 13. viku vetrar, nú á bilinu 19-25. janúar. Þann dag þekkjum við flest undir heitinu bóndadagur.

Heiti mánaðarins þekkist í heimildum a.m.k. frá 12. öld en óvíst er um uppruna orðsins. Orðið þorrablót kemur m.a. fyrir í Flateyjarbók sem talin er rituð á 14. öld. Þar er minnst á Þorra, sem kallaður var blótmaður mikill. Hélt hann blót á miðjum vetri ár hvert og var sú samkoma kölluð þorrablót. Í heimildum frá miðöldum er slíkum mannfagnaði ekki lýst nánar, svo erfitt er að segja til um hvað hefur átt sér stað.[1]

Hinar og þessar sagnir segja frá siðum sem viðgengust í upphafi þorrans, en þeir virðast breytilegir eftir landsvæðum og tímabilum, eins og eðlilegt er. Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar, sem ritað var á 19. öld, segir að á fyrsta degi þorra hafi bóndi átt að fara snemma á fætur og „fagna þorra“ eða „bjóða honum í garð.“ Bóndi átti að fara út á skyrtunni einni fata, og í annarri brókarskálminni og hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn dragandi hina skálmina á eftir sér.[2] Jónas Jónasson frá Hrafnagili bætir við að bóndi hafi á sama tíma átt að viðhafa formála, sem nú er gleymdur, en líklega var hann líkur þeim sem húsfreyjur áttu að fara með, þegar þær hoppuðu fáklæddar kringum bæinn og heilsuðu Góu (sem fylgir í kjölfar þorra): Velkomin sértu, góa mín, / og gakktu inn í bæinn,/ vertu ekki úti í vindinum, / vorlangan daginn.

Brauðtrog frá Veðramóti í Gönguskörðum. Brauðtrog voru notuð til að hnoða í. Þau voru oft með stærri botn en önnur trog og lægri hliðarfjalir. Mynd: BSk-483.

Brauðtrog frá Veðramóti í Gönguskörðum. Brauðtrog voru notuð til að hnoða í. Þau voru oft með stærri botn en önnur trog og lægri hliðarfjalir. Mynd: BSk-483.

Átti húsfreyja að gera vel við bónda sinn á bóndadaginn og hann að bjóða nágrönnum til veislu.[3] Elsta ritaða heimildin um þorrablót sem samkomu í heimahúsum er frá 1728, en það eitt og sér segir þó ekkert um líftíma hefðarinnar og skemmtanarinnar sem slíkrar enda eru siðir almúgans ekki endilega gerðir að umtalsefni í rituðum heimildum.[4] Þær þorrablótshefðir sem við þekkjum í dag byggja að mestu á samkomum sem tíðkuðust á 19. öld, þegar mennta- og embættismenn héldu matar- og drykkjuveislur til heiðurs heiðinna goða, og má setja í samhengi við þjóðernisrómantíkina þar sem ýmislegt gamalt gekk í endurnýjun lífdaga. Síðan er líkt og slíkar samkomur hafi lagst af í nokkra áratugi, sérstaklega í kaupstöðum, eða þar til um miðja 20. öld þegar átthagafélög og önnur félagasamtök hófu að stefna fólki til samsætis og skemmtana.[5]

Það sem við köllum þorramat er matur sem tíðkaðist á Íslandi öldum saman og verkaður er með hefðbundnum geymsluaðferðum frá því fyrir tíma ísskápanna; þurrkaður, reyktur, saltur og súrsaður. Orðið þorramatur birtist fyrst á prenti í febrúar 1958.[6] Yfirleitt er maturinn borinn á borð í trogum á þorrablótum nútímans. Trog eiga sér langa sögu og hafa lítið breyst í aldanna rás. Trog höfðu hinum ýmsu hlutverkum að gegna og fóru heiti þeirra eftir notkun; t.d. mjólkurtrog, blóðtrog, sláturtrog, matartrog, öskutrog o.s.frv. Trogin gátu jafnframt haft fleiri en einu hlutverki að gegna þótt sum væru sérstaklega smíðuð fyrir ákveðin hlutverk.[7]

Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Áður birst í 4. tbl. Feykis 2019

[1] Árni Björnsson, Saga daganna. (1993). Mál og menning, Reykjavík. Bls. 433-436.
[2] Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. II bindi. (1954). Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík . Bls. 550-55
[3] Jónas Jónasson frá Hrafnagili segir að bóndi eigi að fara þrjá hringi í kringum bæinn/ Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934). (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan Opna, Reykjavík. Bls. 213-214.
[4] Árni Björnsson, Saga daganna. (1993). Mál og menning, Reykjavík. Bls. 437-438.
[5] Sama heimild. Bls. 440-481.
[6] Sama heimild. Bls. 478.
[7] Þórður Tómasson, Mjólk í mat (2016). Bókaútgáfan Sæmundur, Selfossi. Bls. 24-29.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir