Borgnesingar bitu frá sér en Stólarnir voru sterkari

Það var landsbyggðarslagur í Síkinu í kvöld þegar Skallagrímsmenn úr Borgarnesi mættu til leiks í 10. umferð Dominos-deildarinnar. Gengi liðanna hefur verið ólíkt upp á síðkastið; Stólarnir á sigurbraut en eintóm brekka og töp hjá Borgnesingum. Það voru því kannski ekki margir sem reiknuðu með baráttuleik en sú varð engu að síður raunin og þegar upp var staðið þá var það íslenski kjarninn í liði Stólanna sem náði að hemja gestina og ná góðu forskoti í fjórða leikhluta. Lokatölur 89-73 fyrir Tindastól.

Leikurinn fór vel af stað og Dino og Danero skelltu niður þristum í byrjun og gáfu Stólunum fljúgandi start. Það var ljóst að gestirnir ætluðu ekki að hleypa Brynjari svo glatt í einhverja Blikaveislu í kvöld og skelltu á hann yfirfrakka. Aðrir Tindastólsmenn urðu því að taka af skarið í kvöld og það gekk ágætlega framan af. Skallagrímsmenn létu þó ekki vaða yfir sig og sérstaklega var Domogoj Samac öflugur í liði þeirra. Stólarnir reyndu að spila blússandi sóknarleik en í hvert sinn sem þeir virtust á góðri leið með að stinga gestina af þá fóru menn að reyna erfiða hluti í sókninni og fengu skyndisóknir í andlitið. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 23-16 fyrir Tindastól. Munurinn var orðinn þrjú stig snemma í öðrum leikhluta og nú var meira jafnræði með liðunum. Brynjar gerði sinn fyrsta þrist í kvöld þegar rúmlega korter var liðið og munurinn sex stig, 36-30. Pétur jók muninn í níu stig en staðan að loknum fyrri hálfleik var 47-40 þar sem tilfinningin var sú að Stólarnir hefðu farið illa með nokkur tækifæri til að stinga af.

Stólarnir mættu sprækir í síðari hálfleikinn og gerðu fyrstu fimm stigin. Þá var eins og leikmenn héldu að leikurinn væri unninn en það var nú öðru nær. Stólarnir misstu hvern boltann af öðrum á meðan Skallarnir þokuðu sér nær og Samac kom þeim síðan yfir, 52-53, þegar rúmar fimm mínútur voru búnar af þriðja leikhluta. Martin setti þá Alawoya og Danero á bekkinn og Dino skömmu síðar og inn á voru Helgarnir tveir, Pétur, Brynjar og Viðar. Nú loks komst vörnin í gang og sóknarleikurinn róaðist aðeins. Pétur gerði fjögur stig og þristur og flóter frá Brynjari færðu Stólunum fimm stiga forystu, 61-56, fyrir lokafjórðunginn. Nú var Brynjar hvíldur og Hannes kom inn og vörn Stólanna hélt áfram á toppsnúning. Viðar setti niður velkominn þrist og Stólarnir fengu smá andrými. Tveir risaþristar frá Helga Margeirs gerðu þó útslagið og Stólarnir komnir með þrettán stiga forystu, 72-59, og eftir það náðu gestirnir aldrei að koma muninum niður fyrir tíu stigin.

Sigurinn var öruggur að lokum og Stólarnir eru áfram á toppi deildarinnar ásamt liði Njarðvíkinga, sem þurfti að hafa talsvert fyrir sigri á liði Breiðabliks í Ljónagryfjunni í kvöld. 

Leikur Tindastóls var sveiflukenndur og sýndu leikmenn á köflum frábæra takta en duttu svo niður í hálfgerða þvælu þess á milli. Þegar til kom var það vörnin og liðsheildin sem skóp sigurinn að þessu sinni og þar var Viðar í aðalhlutverki í kvöld, framlag hans var frábært þó það sjáist ekki endilega í tölfræðinni. Helgi Rafn var ólseigur eins og hans er von og vísa og þá setti hann niður nokkrar sætar körfur á lokakaflanum. Það var gaman fyrir stuðningsmenn Stólanna að sjá að þegar Israel Martin þurfti að leita á bekkinn til að snúa leiknum við, þá stigu menn upp og svöruðu kallinu. 

Danero Thomas var stigahæstur með 17 stig en hann tapaði sex boltum en stal öðrum fimm þannig að það var mikill hasar í kringum leik hans í kvöld. Dino Butorac gerði 15 stig og Alawoya 12 stig og tók níu fráköst á þeim tæpu 20 mínútum sem hann spilaði. Pétur og Brynjar skiluðu flestum mínútum í kvöld og voru báðir með 11 stig og spiluðu ágæta vörn. Helgi Rafn var með sex stig og tíu fráköst, Helgi Margeirs sömuleiðis sex stig, Viðar fimm stig og átta fráköst og þá voru Hannes og Finnbogi með þrjú stig hvor.

Í liði Skallagríms var Jackson með 19 stig, Samac 18, Bjarni níu og Björgvin Hafþór sjö stig. Það er orðið ansi langt síðan Skallagrímur vann síðast leik en það hlýtur að styttast í það því liðið er að mörgu leiti ágætt. Þeir settu í það minnsta smá skrekk í stuðningsmenn Tindastóls í kvöld. Næsti leikur Tindastóls er hér heima á sunnudaginn þegar Fjölnir kemur í heimsókn í Geysisbikarnum. Lokaleikir fyrri umferðar Dominos-deildarinnar fara síðan fram 19. og 20. desember en Stólarnir mæta Keflvíkingum í Keflavík þann 20. desember.

Tölfræði á vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir