Bráðum kemur fimmtándi jan

Þuríður Harpa undirbýr þessa dagana fjórðu ferð sína til Delí en að þessu sinni mun Auður Aðalsteinsdóttir, sjúkraþjálfarii Þuríðar fara með henni. Þuríður bloggaði nýverið um undirbúninginn.

"Ég hafði það af, loksins, að klára að bóka og borga flugið út til Delí og aftur HEIM. Ég sem sagt flýg út að morgni 15. jan. og kem heim aftur seinni part 13. feb. Nú er bara að skipuleggja hvað á að fara í ferðatöskur þar sem 20 kg. er hámark. Ég veit ég fæ góða aðstoð frá móður minni við það, enda með eindæmum flínkur pakkari þar á ferð. Framundan er að pakka jólunum, verst að ég gleymdi að fá stóra strákinn minn til að taka kassana ofan af lofti áður en hann fór austur á Höfn, en þar ætlar hann að vera í skóla það sem eftir er vetrar. Já við erum orðnar tvær einar í kotinu, við mæðgur, og já, ég er strax farin að sakna hans. Ótrúlegt en satt ;O) – Góð matarlykt berst hingað til mín þar sem ég sit og stauta á tölvuna, en dóttla er að elda handa okkur grænmetiseggjaköku, hollt og gott eftir allan hátíðarmatinn undanfarið. Úti kúra jólaljós í myrkrinu og ég, af einhverjum óskilgreindum ástæðum finn til kvíða vegna næstu Indlandsferðar, veit þó að allt mun verða í himnalagi, veit líka að tíminn verður fljótur að líða og brátt verð ég komin heim aftur með nýja og spennandi virkni í kroppnum. Mér dettur stundum í hug setning sem ég sá hjá ágætri vinkonum minni þar sem hún sagði á fésbókinni að hún ætlaði -að finna eldmóðinn í sér- Ég þarf virkilega að finna hann í mér núna, setja allan minn kraft í leitina og finna sjálfan mig blása upp af eldmóð og krafti, vaða svo af stað í verkefnið. Þetta er allt að koma ég er byrjuð að belgja mig upp, ég veit hvað ég vil, veit hvað ég ætla að gera, hvað ég ætla að vera. Ég mun bæta lífsgæði mín, ég mun ganga betur og meira, ég mun öðlast meiri færni meiri styrk í lamaða hlutann og meiri kraft. Ég er að fara í mína fjórðu ferð til Delhí og það eru ekki liðin tvö ár síðan ég fór fyrst, enn horfi ég til baka og sé þá hverju ég hef í raun áorkað og ég er svo ótrúlega fegin að hafa getað farið í þetta ferðalag, svo fegin því að hafa ekki setið heima og hugsað það sem eftir væri æfinnar -bara að ég hefði nú farið af stað – Ég fór af stað og það færði mér aftur pínu af sjálfri mér, í dag hef ég kraft til að skríða á fjórum fótum, kraft til að draga fæturna hvorn fram fyrir annan, það gat ég bara ekki fyrr en í nóvember sl. Ég spyr mig þó stundum hvort þetta brölt mitt til aukinna lífsgæða hafi kostað mig of mikið í persónulegu lífi, en minnist þá orða góðrar vinkonu sem sagði við mig -Ef einhver elskar okkur ekki nóg til að taka þátt í kjörum okkar þá verður það þannig …því breytum við ekki.Þá hlúum við betur að þeim sem eftir standa og horfum fram á veginn. – Frábærlega vel orðað og fær mig alltaf til að skoða málin á annan hátt. Best að hætta þessu rausi í bili enda frökenin á heimilinu búin að elda og orðin óþolinmóð að bíða með matinn. ;O)

Fleiri fréttir