Brautskráning að hausti frá Hólum
Í gær komu þrír nemar í ferðamáladeild heim að Hólum og kynntu BA-ritgerðir sínar. Brautskráning frá skólanum að hausti fer fram á morgun, 10. október. Athöfnin verður í Hóladómkirkju og hefst kl. 14. Brautskráð verður frá öllum deildum skólans.
Nemendurnir sem kynntu ritgerðir sínar voru þau Ágúst H. Rúnarsson, Olga Sædís Aðalsteinsdóttir og Ragnheiður Björk Sigurðardóttir. Öll skrifuðu þau um efni sem sem tengjast áhuga þeirra og starfssviði. Ágúst sá fyrir sér Hálendismiðstöð að Fjallabaki, með sjálfbærni að leiðarljósi. Olga Sædís varpaði ljósi á sambúð tveggja atvinnugreina, sjávarútvegs og ferðaþjónustu, í íslensku sjávarþorpi. Og Ragnheiður Björk fjallaði um nýtingu lítilla sveitasundlauga í heilsu- og vellíðunarferðaþjónustu.
Með þeim á myndinni, sem fengin er af vef Hólaskóla, eru leiðbeinendurnir þeirra - Kjartan Bollason, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir og Laufey Haraldsdóttir - ásamt Bergþóru Aradóttur, umsjónarkennara BA-ritgerða.