Brjálæðis-janúar framundan
Janúarmánuður er stór og mikill mánuður fyrir meistaraflokkinn. Liðið leikur alls fjóra leiki í Iceland-Express deildinni, þar af þrjá heimaleiki, auk þess sem heimaleikur verður í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins.
Samtals verða leiknar fjórar umferðir í Iceland Express deildinni í janúar og má búast við því að línur taki eilítið að skýrast eftir þann mánuð. Tindastóll á þrjá heimaleiki af þessum fjórum og vekur það vonir um að liðið nái að klifra enn frekar upp stigatöfluna, en með sigri á Njarðvíkingum í síðasta leiknum fyrir jól, náðu strákarnir að lyfta sér upp í 8. sæti eftir nokkuð brösuga byrjun.
Fyrsti leikurinn á nýju ári verður heimaleikur við KFÍ fimmtudaginn 6. janúar. Sunnudaginn 9. janúar tekur Tindastóll á móti Skallagrími í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins. Athygli er vakin á því að ársmiðar gilda ekki á bikarleiki. Viku síðar, eða sunnudaginn 16. janúar koma Haukamenn í heimsókn í deildinni, fimmtudaginn 20. janúar liggur leið okkar manna til Grindavíkur og janúarbrjálæðinu lýkur svo með heimaleik gegn ÍR fimmtudaginn 27. janúar.
Það er því óhætt að segja að janúar sé afar mikilvægur fyrir okkar menn. Bæði getur liðið klifrað upp stigatöfluna með því að leggja andstæðinga að velli og komist í undanúrslit Powerade-bikarsins. Strákarnir sýndu í seinni hluta leikja sinna fyrir áramót hvað í þá er spunnið og vonandi halda menn einbeitingunni og viljanum gangandi yfir hátíðarnar svo taka megi upp þráðinn að nýju.
Stuðningsmenn eru beðnir um að búa sig vel undir spennandi janúarmánuð sem getur skipt sköpum fyrir framhaldið í deild og bikar