Brynhildur Erla maður ársins 2014 í A-Hún

Lesendur Húnahornsins hafa valið Brynhildi Erlu Jakobsdóttur, íþróttafræðing og íþróttakennara við Blönduskóla, sem mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2014 fyrir að stuðla að bættri heilsu Austur-Húnvetninga. Tilkynnt var um valið á þorrablóti Vökukvenna sem haldið var í Félagsheimilinu á Blönduósi sl. laugardagskvöld.

Á Húna.is segir að góð þátttaka hafi verið í valinu en Brynhildur Erla, eða Erla eins og hún er oftast kölluð, tók við viðurkenningarskildi frá fulltrúa Húnahornsins á þorrablóti Vökukvenna.

Erla hefur á síðasta ári komið mörgum Húnvetningnum til betri heilsu, á einstaklega góðan og nærgætinn hátt með sínum vinsælu Metabolic námskeiðum. Hún hefur haft mikil áhrif á að Húnvetningar séu meðvitaðri um mikilvægi hreyfingar og heilbrigðs lífernis.

Erla er 35 ára Blönduósingur. Hún útskrifaðist sem íþróttafræðingur árið 2005 og sem ÍAK einkaþjálfari árið 2013. Erla starfar sem íþróttakennari við Blönduskóla auk þess að sinna hóptímaþjálfun og íþróttaskóla fyrir börn.

Þetta er í tíunda sinn sem lesendur Húnahornsins velja manni ársins í Austur-Húnavatnssýslu. Greint er frá þessu á huni.is.

Fleiri fréttir